131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Háhraðatengingar.

188. mál
[15:55]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Það var leitt að heyra svör hæstv. ráðherra. Ég taldi að hann mundi taka af skarið og lýsa því yfir að hann ætlaði í krafti embættis síns að tryggja öllum Íslendingum aðgengi að háhraðanettengingu. Þær leiðir sem hann fer að því markmiði eru í sjálfu sér aukaatriði, hvort hann notar þjónustu Símans eða annarra fyrirtækja til þess er aukaatriði. Hið opinbera á að tryggja öllum Íslendingum aðgengi að slíkri þjónustu, rétt eins og orku og síma, svo að dæmi séu tekin. Án aðgengis að nútímafjarskiptum eru byggðirnar einfaldlega settar hjá og settar af.

Það ríkir engin samkeppni til sveita um hárhraðanettengingar eða aðgengi að upplýsingaþjónustu, það er bara þannig. Þessar byggðir hafa ekki aðgengi að upplýsingabyltingunni og möguleikunum sem upplýsingabyltingin veitir okkur. Þær eru einfaldlega settar hjá. Það er fjarstæðukennt að skáka í því skjóli að Síminn eigi að fara í sölu, að samkeppni ríki á fjarskiptamarkaði o.s.frv. Þetta er grunnþjónusta sem ríkið á að veita, aðgengi að háhraðanetinu í byggðum sem enginn aðili sér hag í að veita þjónustuna út frá beinum gróðasjónarmiðum. Inn í það á hið opinbera að koma og tryggja þjónustuna. Að sjálfsögðu eigum við að nota krafta Símans, eins öflugasta og auðugasta fyrirtækis á Íslandi, fyrirtækis sem er öflugt og auðugt af því að við sem eigum það höfum gert það öflugt og auðugt.

Síminn er forréttindafyrirtæki á mörgum sviðum. Hvort sem það hefur verið ákveðið af hæstv. ríkisstjórn að selja það eða ekki þá skiptir það ekki máli. Kostnaðurinn er smáaurar í því samhengi að Síminn fer með fjármuni í áhættufjárfestingar í fjölmiðlarekstri og öðru slíku. Það á að sjálfsögðu að nota aflið og auðinn til að tryggja öllum íbúum Íslands jafnmikla grunnþjónustu og aðgengi að háhraðaneti.