131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnutilhögun unglækna.

158. mál
[18:17]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur beint til mín fyrirspurn um vinnutilhögun unglækna. Sem kunnugt er hefur það viðgengist víða um lönd að unglæknar, þ.e. læknar í starfsþjálfun, hafa áður og fyrrum gengið langan vinnudag svo að úr hófi hefur verið, bæði hérlendis og erlendis. Á þessum þáttum hefur markvisst verið tekið og má í því sambandi minna á að læknar í starfsnámi hafa verið felldir undir vinnutímaákvæði Evrópusambandsins, enda hafa fyrstu tilskipanir þaðan reynst óframkvæmanlegar fyrir mörg lönd. Munu þau ákvæði vera í endurskoðun.

Á Íslandi hefur þessi vandi helst snúið að stóru sjúkrahúsunum, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hef ég fyrir nokkru beint þeim tilmælum til sjúkrahúsanna að vinna ákveðið að bættu skipulagi vinnutíma unglækna þannig að hann falli að öllum gildandi ákvæðum og verði jafnframt fjölskylduvænn. Sjúkrahúsin hafa tekið á þessum málum og hefur þeim tekist að koma þeim í betra horf á öllum stærstu sviðum spítalanna þó að oft hafi reynst erfitt að samræma vinnutíma og vaktatilhögun á öllum deildum. Einnig hefur á sumum deildum verið það lítið vinnuálag á næturnar að unglæknar hafa frekar kosið að halda gildandi fyrirkomulagi óbreyttu í stað þess að hafa vaktir styttri en að sama skapi þéttar.

Ég hef fylgst vel með ástandi þessara mála, tel að þau hafi á undanförnum árum lagast verulega hvað vinnuálag lækna í starfsnámi snertir. Verður það að teljast í langflestum tilvikum fyllilega forsvaranlegt þó að vissulega geti verið undantekning þar á.