131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnutilhögun unglækna.

158. mál
[18:19]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svör hans. Mér fannst ég skynja skilning hjá hæstv. heilbrigðisráðherra á þessu vandamáli en hins vegar fannst mér einnig skorta tilfinnanlega vilja til að ganga alla leið og laga þetta. Það má vel vera að þetta hafi batnað hægt og rólega á sumum deildum en vandamáli af þessu tagi verðum við að kippa í liðinn sem fyrst. Mér finnst aðkoma hæstv. heilbrigðisráðherra nauðsynleg. Ég tel að hann eigi að beita sér fyrir beinum breytingum hvað þetta varðar, ég tala ekki um ef lög eru brotin. Ef lög um hvíldartíma eru brotin er það auðvitað háalvarlegt. Eins og fram kom í máli mínu er Félag unglækna að huga að dómsmáli vegna þessa máls og það er búið að draga það félag ansi lengi á úrbótum með þeim svörum að málið sé að fara að batna. Hins vegar gerist lítið í þeim efnum.

Ég tel það einnig á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra ef spítalinn er hreinlega undirmannaður, ef kerfið býður upp á það að viðkomandi læknir, unglæknir í þessu tilviki, vinni í of langan tíma. Þá er eitthvað að. Ég tel enn fremur að ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra sé á að öryggi sé á spítalanum, bæði gagnvart starfsmönnum og sjúklingum. Það er á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra að við höfum ekki örþreytta lækna til að sinna þeim verkum sem þeim ber að sinna. Svo tel ég einnig að kjör starfsmannanna séu á ábyrgð hæstv. heilbrigðisráðherra og þau réttindi sem þeir hafa. Ef verið er að brjóta einhver ákveðin réttindi á unglæknum eða ekki komið til móts við eðlilegar kröfur af þeirra hálfu tel ég að ráðherrann þurfi að beita sér af meiri krafti en ég gat lesið vilja um í svari hans. Ég vona að hann fari í gang, hafi samband við yfirstjórn spítalans og að þetta mál verði leyst farsællega því hér er, eins og oft þegar heilbrigðismál eru til umræðu, ansi mikið í húfi.