131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Vinnutilhögun unglækna.

158. mál
[18:22]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir það að hér er mikið í húfi eins og ávallt þar sem heilbrigðiskerfið er að verki og heilbrigðisstarfsmenn koma nálægt.

Ég endurtek það sem kom fram í svari mínu að það er nokkuð liðið síðan ég beindi skriflegum tilmælum til spítalanna um að fara yfir þessi mál og laga þau að þeim reglum sem fyrir hendi eru. Að sjálfsögðu munum við fylgjast með því áfram hvernig framkvæmdin verður á því. Ég hef í rauninni ekki mikið meira um það að segja annað en það að ég hef áhuga á að þessi mál séu í sem bestu lagi og að allt öryggi sé tryggt í þeim.

Það má bæta því við í lokin að það er ekki alveg rétt sem Jóhannes Kristjánsson hefur eftir mér á samkomum að ég ætli að bíða með að semja við unglæknana þangað til þeir verða gamlir. Það eru ýkjur. Ég hef einsett mér að fylgjast með þessum málum.