131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heilsugæslustöðin á Raufarhöfn.

120. mál
[18:27]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðaust. Kristján L. Möller hefur beint til mín fyrirspurn varðandi framkvæmdir við heilsugæslustöðina á Raufarhöfn, hvers vegna þær séu ekki hafnar, hvenær áætlað sé að þær hefjist, hvenær þeim ljúki og hver hafi verið undirbúningskostnaður við verkið.

Því er fyrst til að svara að undirbúningur að núverandi endurbótum á húsnæði heilsugæslustöðvarinnar á Raufarhöfn hófst á árinu 2001. Margt hefur orðið til að tefja þá vinnu. Bæði hafa nýjar hugmyndir um lausn verkefnisins truflað undirbúning og jafnframt hafa gefin loforð um skil á undirbúningsvinnu ekki staðist. Því hefur ekki verið unnt að hefjast handa.

Nú er vetur genginn í garð og ekki heppilegt að hefja slíkt verk fyrr en vorar á ný. Verður veturinn í vetur notaður til að yfirfara öll áform um verkið og forsendur þess. Ætlunin er að sú yfirferð taki ekki meira en fjóra mánuði. Framkvæmdir hefjast svo strax og niðurstaða hennar liggur fyrir og árstíð leyfir. Verklok verða í síðasta lagi haustið 2005.

Bókfærður kostnaður vegna þessa verkefnis er 1.538 þús. kr., þar af 1.260 þús. kr. vegna hönnunar verksins.

Ég vona að þessar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns en það er rétt sem hann segir að þetta verk hefur dregist úr hömlu. Ég vil gera mitt til að ljúka því á næsta ári.