131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Heilsugæslustöðin á Raufarhöfn.

120. mál
[18:28]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það svar sem hann hefur gefið hinu háa Alþingi um þessar framkvæmdir. Auðvitað eiga þingmenn ekki að þurfa að koma inn með fyrirspurnir sem þessar. Alþingismenn eiga að taka ákvörðun um að setja þetta á fjárlög og síðan á verkið að fara á framkvæmdastig.

Eins og hæstv. ráðherra sagði hefur undirbúningur fyrir þetta verk staðið frá árinu 2001. Nú er nóvember 2004 þannig að þetta er auðvitað alveg ótrúlega langur undirbúningstími. Eins og hann sagði stóðust ekki gefin loforð um hönnun og annað slíkt sem er auðvitað mjög alvarlegt mál og ekki eingöngu vegna Raufarhafnarbúa. Það er líka alvarlegt mál fyrir stjórnsýsluna í landinu ef það gengur þannig til að framkvæmdir sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur beitt sér fyrir og með góðum hug sett inn í fjárlög hefjast ekki vegna þess sem hér hefur komið fram.

Hæstv. ráðherra segir að vegna vetrarkomu verði ekki hafist handa núna heldur í vor og verkið tilbúið haustið 2005. Auðvitað fagna ég því þó að ég gagnrýni það líka, eins og ég gerði áðan, hvað þetta hefur dregist von úr viti. Betra er samt seint en aldrei og aðalatriðið er að hæstv. ráðherra hefur skýrt afstöðu sína í málinu og ég treysti því að hann ýti vel á eftir því þannig að ekki þurfi að taka málið aftur upp haustið 2005 á hinu háa Alþingi. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir það og hvet hann til dáða í því að ýta þessu verki í gang eins og áætlanir hafa verið. Raufarhafnarbúar eiga ekki að þurfa að bíða lengur eftir þessari sjálfsögðu framkvæmd.