131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sementsverð á landsbyggðinni.

152. mál
[18:34]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Málið sem ég ætla að bera upp við ráðherra varðar flutningsjöfnun. Flutningsjöfnun hefur verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar um árabil en lítið gerst. Samt sem áður er sí og æ fjallað um flutningsjöfnun og síðast í ákaflega lélegri skýrslu um framvindu byggðamála.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Á vegum iðnaðarráðuneytisins er verið að kanna möguleika á að teknar verði upp endurgreiðslur til framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni á hluta flutningskostnaðar.“

En eina sem ríkisstjórnin hefur gert er að afnema flutningsjöfnun. Mér finnst það alveg stórundarlegt í ljósi þess að þetta hefur verið á dagskrá hjá ríkisstjórninni í rúm þrjú ár og eina sem gerist er að málin fara aftur á bak. Það finnst mér alveg stórundarlegt.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra um þá ákvörðun að afleggja þá jöfnun sem var á flutningi á sementi.

Fyrirspurnin er á þá leið:

Hefur það gengið eftir, sem fram kom í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 63/2004, að hækkun sementsverðs á landsbyggðinni yrði að líkindum óveruleg þótt hætt yrði að jafna flutningskostnað á sementi?

Mig langar að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort þetta hafi gengið eftir, hvort hún hafi kannað hvort sementsverð hafi hækkað og hafi það hækkað, mun hæstv. iðnaðarráðherra beita sér fyrir því að flutningsjöfnun verði tekin upp á ný á sementi?

Það er óneitanlega furðulegt að fylgjast með því að sí og æ sé verið að tala um flutningsjöfnun og það eina sem gerist hjá hæstv. iðnaðarráðherra er að sú litla flutningsjöfnun sem fyrir var er afnumin. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvort verið sé að kanna þessi mál, hvort það hafi gengið eftir sem fram kom í athugasemdum með lagafrumvarpinu sem samþykkt var í vor.