131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Sementsverð á landsbyggðinni.

152. mál
[18:43]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en ég held að það sé alveg ljóst að það hefur orðið umtalsverð hækkun víða, 72% hækkun á Raufarhöfn heyrðist mér. Ég kannaði sjálfur að það hefur orðið rúmlega 30% hækkun á Siglufirði og 20% í Húnavatnssýslum á sementi. (Gripið fram í: ... Sauðárkróki.) Já, á Sauðárkróki hefur líka orðið hækkun. Hér er því um hækkun að ræða. Hvað lögðu menn af stað með þegar ákveðið var að fara í þessa löggjöf? Þá var ekki ætlunin að hækka, það var ætlunin að þetta yrði óveruleg hækkun. Sama hvað öll meðaltöl segja er yfir 70% hækkun veruleg hækkun, ég held að flestir geti verið sammála um það.

Þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að fara vel yfir þessar tölur vegna þess að það var ekki markmiðið að hækka á landsbyggðinni. Ef menn ná ekki fram markmiðinu með lagasetningunni er sjálfsagt að fara yfir það og endurskoða hlutina þannig að markmið laganna náist. Ég tel það vera rétt.

Enn og aftur vil ég taka undir með hv. þm. Kristjáni L. Möller að þetta er orðin svolítið löng saga með flutningsjöfnun framleiðslufyrirtækja á landsbyggðinni og kominn tími til að hæstv. ráðherra taki á sig rögg og láti hendur standa fram úr ermum og efni þau orð sem hafa verið í skýrslum og víðar svo árum skiptir.