131. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2004.

Blönduvirkjun.

196. mál
[18:56]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Já, ég hef lagt það í vana minn að horfa frekar björtum augum á lífið og tilveruna (Gripið fram í.) og ég sé ýmislegt jákvætt (Gripið fram í: ... horfast í augu við raunveruleikann.) vera að gerast á landsbyggðinni. Ég sagði líka áðan að það væri alltaf hægt að gera betur. Eins og hv. þm. hefur orðið var við hefur Framsóknarflokkurinn unnið sérstaka byggðaáætlun fyrir Norðvesturkjördæmi og í því hlýtur að felast a.m.k. ákveðin viðleitni. Hvert tækifæri sem kemur upp er nýtt til að auka fjölbreytni atvinnulífsins. Það ætla ég að segja hv. þingmanni.

Hv. þingmaður talar um að það þurfi ekkert að vera að virkja af því að það sé hvort sem er enginn kaupandi. Það er alveg hárrétt, það er grundvallaratriði þegar farið er í virkjanir að það sé kaupandi. Þess vegna verður ekki farið í neina virkjun í Skagafirði nema fyrir liggi að einhver kaupandi sé að orkunni. Ef svo færi að þar yrði uppbygging á orkufrekum iðnaði er mjög gott að vita af Blönduvirkjun á svæðinu. Það sem ég var að reyna að segja áðan er að til þess að sú orka yrði flutt í Skagafjörð þyrfti að styrkja flutningskerfið. Þetta er allt háð hvað öðru og möguleikarnir eru ýmsir en það er grundvallaratriði, held ég, að það verður ekki virkjað nema það sé kaupandi. Um það held ég að við hljótum að vera sammála, ég og hv. þingmaður.