131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[10:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu hans, þá fyrstu sem Davíð Oddsson leggur fyrir þingið í sínu nýja embætti. Hann fór að venju víða um í ræðu sinni, um sumt get ég verið honum sammála, annað er miklu erfiðara að skrifa undir. Síðan er því ekki að leyna að nálgun hans að umdeildum alþjóðlegum deilumálum og átökum á borð við Íraksstríðið, og einkunnagjafir hans í þeim efnum, er ég algjörlega ósammála og mun fara betur yfir það á eftir.

Samfylkingin hefur ævinlega lagt áherslu á mikilvægi þess að staða Íslands í samfélagi þjóðanna væri staða smáríkis sem léti til sín taka á alþjóðavettvangi hvar sem tækifæri gæfist og við gætum lagt gott til. Þessi nálgun skiptir máli hvað varðar ímynd þjóðarinnar, ímynd herlausrar þjóðar sem er annt um mannréttindi og frið í heiminum hvar sem er. Auk þess varðar það líka miklu inn á við að Ísland sé virkur aðili í tafli alþjóðastjórnmála, að heimurinn fer einfaldlega minnkandi og að við Íslendingar þurfum að vera opnir fyrir alþjóðlegri opnun efnahagskerfa heimsins og nýta okkur þau tækifæri sem þar gefast. Aukinheldur eigum við Íslendingar ekki að hræðast alþjóðasamstarf á víðtækum vettvangi, jafnvel ekki á menningarsviðinu, og vera opnir fyrir nýjum straumum og stefnum í þeim efnum en um leið að vera íhaldssamir á hin þjóðernislegu gildi svo sem íslenska tungu.

Það er staðreynd að við jafnaðarmenn höfum gjarnan verið í fararbroddi þegar brotið hefur verið í blað í samskiptum Íslendinga við útlönd. Það hefur ævinlega verið eins og opin bók að jafnaðarstefnan er alþjóðleg og við höfum samband við bræðraflokka erlendis og þar með milljónir skoðanasystkina okkar um allan heim. Jafnaðarstefnan og þau lífsgildi sem hún byggir á eru nefnilega án landamæra og baráttan fyrir frelsinu, jöfnuðinum og bræðralaginu þannig sömuleiðis.

Það eru hins vegar ekkert allt of mörg ár frá því að ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, hvor um sig komu út úr skápnum eins og það er stundum nefnt og hættu talinu um að þessir flokkar væru séríslenskir og þyrftu ekkert til útlanda að sækja, hvorki hugmyndir né verklag. Það hefur sem betur fer breyst á síðari árum og umræðan um utanríkismál hérlendis því orðið beinskeyttari og markvissari en fyrr og ekki bara snúist um séríslenska hagsmuni heldur hafa stjórnmálaflokkarnir allir loks viðurkennt að ástandið í fjarlægum heimsálfum og stefna stjórnvalda og stjórnmálaflokka og stjórnmálaafla skiptir máli fyrir Ísland með beinum og óbeinum hætti. Að þessu sögðu hyggst ég fara yfir nokkur atriði í ræðu ráðherrans en verð að stikla á stóru enda aðeins með stuttan tíma til ráðstöfunar.

Hæstv. utanríkisráðherra fór eðli máls samkvæmt yfir varnar- og öryggismál þjóðarinnar sem er afar mikilvægt mál nú um stundir. Það er í bókstaflegri merkingu verið að setja niður framtíðarskipan þeirra mála nú í þessum töluðu orðum hvað varðar öryggi og varnir landsins til langrar framtíðar. Nú er það alkunna að á síðustu öld og allt frá því að Bandaríkjamenn settu niður herstöð á Keflavíkurflugvelli og gerður var varnarsamningurinn var þjóðin var mjög skipt, ég vil ekki segja klofin, til þeirra álitaefna sem þar voru uppi. Því er afar mikilvægt nú að þannig verði að verki staðið þegar heildarendurskoðun þessara mála stendur yfir að verklag og vinnubrögð verði með þeim hætti að reynt verði að skapa eins breiða sátt um niðurstöður mála og nokkur kostur er.

Allt frá því að fréttir bárust fyrir hálfu öðru ári síðan um að Bandaríkjamenn hygðust með einhliða hætti draga mjög úr starfsemi herstöðvarinnar lagði Samfylkingin áherslu á að koma að viðræðum ríkisstjórnarinnar við bandarísk yfirvöld og vinna með ríkisstjórninni að þeim lausnum og hugmyndum sem leitt gætu til farsællar niðurstöðu þeirra mála. Því miður var ekki tekið í þá útréttu sáttarhönd á þeim tíma heldur ákvað ríkisstjórnin að halda áfram á eigin forsendum og algjörlega án samráðs. Það harma ég og gagnrýni um leið. Aukinheldur lagði Samfylkingin fram þingmál á síðasta þingi þar sem leitað var eftir samráði við forsvarsmenn ríkisstjórnarflokkanna um að ná lendingu þess máls þar sem m.a. var lagt til að fagleg vinna og umræða væri í gangi um öryggis- og varnarmál þjóðarinnar, endurvakin yrði í raun öryggismálanefnd sem starfaði áratugum saman hér fyrr á árum með ágætum árangri. Því hafnaði ríkisstjórnin einnig. Það verður því að segjast að ríkisstjórnin hefur ekki, því miður, haldið þannig á þessum málum að sérstök ástæða sé til að vera bjartsýnn á hina breiðu samstöðu um niðurstöðu mála.

Ég vil undirstrika það rækilega að Samfylkingin vill og er ábyrg í varnarmálum þjóðarinnar og vill ekki að flanað verði að neinu. Þess vegna höfum við í raun stutt þá stefnu að viðræður við Bandaríkjamenn verði á jafnréttisgrundvelli þannig að nást þurfi samkomulag um framtíð herstöðvarinnar, umfang starfseminnar, kostnaðarskiptingu, ekki síst í ljósi gildandi varnarsamnings þjóðanna. Jafnmikilvægt er hins vegar að það liggi ljóst fyrir hver samningsmarkmiðin séu. Það er því miður alls ekki ljóst. Þegar gengið var á forvera núverandi utanríkisráðherra, núv. hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, í umræðum um þessi mál og hann spurður þráðbeint hver væri í raun lágmarksviðbúnaður Bandaríkjamanna þá svaraði hann því til eftir talsverða eftirgangssemi að í raun væri það bókunin sem samþykkt var 1994 og endurnýjuð 1999 við varnarsamninginn. Það væri í raun það gólf sem byggja þyrfti á.

Nú virðist það hins vegar algerlega ljóst að það lágmark er ekki lengur til staðar. Upplýsingar utanríkisráðherra nýverið um samdrátt á Keflavíkurflugvelli, um samdrátt í mannahaldi, bæði hvað varðar hermenn og almenna bandaríska starfsmenn sem og íslenska starfsmenn hefur leitt það í ljós með rækilegum hætti.

Því til viðbótar hafa borist fréttir utan frá, m.a. frá Bandaríkjunum, þar sem það er upplýst að tækjabúnaður af ýmsum toga hefur skipulega verið fluttur úr landi. Það gengur vitaskuld ekki að svona gangi hlutir fram. Ég hlýt því að árétta spurningu mína til nýs utanríkisráðherra: Hver er sá lágmarksviðbúnaður sem ríkisstjórnin og hann í hans embætti mun leggja til að verði grundvöllur framhaldandi samningaviðræðu við bandarísk yfirvöld, þar á meðal utanríkisráðherrann Colin Powell þann 16. nóv. nk.? Hver er þessi lágmarksviðbúnaður? Hvar getum við Íslendingar komið þarna á vettvang og á hvaða vettvangi? Almenn samstaða virðist um að við Íslendingar tökum að okkur rekstur flugvallarins í stórauknum mæli, um það hygg ég að sé ekki deilt, en þegar kemur að öryggismálunum sjálfum þarf einnig að kortleggja nákvæmlega hvar við getum borið niður, hvað það kostar og hvað það þýðir. Þarf að setja Íslendinga undir vopn, og ef svo er í hve ríkum mæli? Öryggisverðir hljóti þeir að kallast því að enginn vilji er hjá þjóðinni til að stofna hér almennan íslenskan her — eða hvað?

Allt eru þetta spurningar sem eru vakandi í umræðunni en engin svör fást við, a.m.k. engin algild svör. Við samfylkingarmenn höfum reynt að vekja þessa umræðu, ekki til að rugga bátnum eða skaða hagsmuni Íslands í viðkvæmum samningum við erlend ríki, heldur til að skapa víðtæka sátt um niðurstöðuna og eins hitt að menn gangi með opnum augum til niðurstöðunnar og framtíðarskipan varnarmála á Íslandi.

Mikilvægi NATO er enn til staðar. Stækkun bandalagsins, sem nú inniheldur 26 þjóðir, undirstrikar það og fleiri eru í biðröð eftir aðild. En eðli og verkefni bandalagsins hafa breyst. Stærsta einstaka breytingin er sú að Atlantshafsbandalagið hefur látið til sín taka utan svæða, þ.e. utan þeirra landa sem taka til bandalagsþjóðanna. Stækkun bandalagsins og þessi ákvörðun um breyttar áherslur vekja upp spurningar hvort ekki sé nauðsyn á því að formfesta betur ákvörðunarferlið sem er mikilvægt ekki síst fyrir minni þjóðir eins og okkur Íslendinga. Hver er það í raun sem tekur ákvarðanir af þessum toga og með hvaða hætti? Ég er sjálfur raunar á leið til fundar þingmannasamtaka NATO síðar í dag þar sem þessi mál verða m.a. til umræðu. Og einnig hitt: Hvernig verður háttað samstarfi Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins? Þau svör eru ekki óyggjandi. Er enn þá hætta á skörun verkefna með þessum hætti? Hvernig verður ákvörðunarferlið þegar kemur að því hver á að láta til sín taka á ófriðarsvæðum, Atlantshafsbandalagið eða Evrópusambandið? Þar eru ákveðin grá svæði enn til staðar sem mikilvægt er að skera úr um hið allra, allra fyrsta.

Hæstv. utanríkisráðherra fór eðli máls samkvæmt yfir stöðu mála í Írak. Ég verð að segja það, frú forseti, að mér fannst lýsing hans á aðdraganda og stöðu mála og þær einkunnagjafir sem þar var að finna vægast sagt á veikum grunni byggðar. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra beint hvað hann hafi í raun átt við og til hverra hann hafi verið að vísa orðum sínum þegar hann með beinu orðalagi vísar til „meinfýsnishlakkandi úrtölumanna víða um heim“? Á hann hér við hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar? Á hann við meiri hluta íslensku þjóðarinnar? Á hann við meiri hluta hins vestræna heims, sem hefur eðli máls samkvæmt bæði gagnrýnt bæði innrásina og það sem á eftir hefur farið? Hverjir eru þessir „meinfýsnishlakkandi“? — Fyrirgefðu, frú forseti, það er ekki undarlegt að ég skuli hnjóta um þetta orðalag og geta tæplega farið með það hér svo vit sé í. Er hæstv. utanríkisráðherra að gera því skóna að við hér inni hlökkum yfir ástandinu í Írak? Er það svo?

Auðvitað er það ekki þannig. Við jafnaðarmenn gagnrýndum mjög harðlega þá ákvörðun sem tekin var um innrás í Írak sem byggðist á því að uppræta gereyðingarvorpn þar í landi, sem ekki hafa reynst til staðar, og við munum halda því áfram. Við munum líka halda því áfram að spyrja hæstvirta oddvita ríkisstjórnarinnar um það á hvaða grundvelli ákvörðun þeirra tveggja var tekin án þess að leita álits ríkisstjórnarinnar, utanríkismálanefndar, hvað þá Alþingis.

Þetta er vissulega liðin tíð og auðvitað ber okkur að huga að því með hvaða hætti við getum best byggt upp þetta stríðshrjáða land. En þar er erfitt um lausnir því að það eru ekki eingöngu eftirhreitur vígamanna Saddams Husseins sem við er að etja, þeir eru kannski ekki stærsta vandamálið, heldur virðist eins og innrásin hafi leitt af sér þann veruleika, því miður, að þarna er orðinn safnhaugur hryðjuverkahópa víða um heim sem þar hafa safnast saman og því miður er ekkert í augnablikinu sem eykur manni bjartsýni um að farsæl lausn sé í sjónmáli. Hér talar ekki meinfýsnishlakkandi úrtölumaður.

Við höfum rætt á hinu háa Alþingi friðargæsluna og stöðu hennar á síðari tímum. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu. Ég vil eingöngu undirstrika það sem ég hef hér áður sagt við það tækifæri að mikilvægt er í þessum efnum að við Íslendignar veljum okkur verkefni við hæfi, göngum til þeirra verkefna að byggja upp stríðshrjáðar þjóðir þar sem við kunnum best til verka. Því set ég spurningarmerki við það sem fram kemur í ræðu hæstv. utanríkisráðherra þegar hann víkur að áformum í þá veru og segir frá því að til standi að Ísland taki þátt í þjálfun írakskra öryggissveita á vegum NATO í Írak. Ég spyr: Kunnum við þar best til verka? Eru ekki önnur verkefni þar sem við getum betur? Ég nefni heilbrigðismál þar til sögunnar.

Frú forseti. Tíminn líður hratt. Ég vil hins vegar ekki láta hjá líða í lokaorðum mínum að víkja nokkrum orðum að þeim breytingum sem orðið hafa og ekki hafa orðið í Bandaríkjunum í kjölfar bandarísku forsetakosninganna og einnig þeirra orða hæstv. ráðherra í ræðu sinni áðan þar sem hann vísar til þess að það sé reginmunur á heilbrigðri gagnrýni og glórulausum fordómum evrópskra stjórnmálamanna og fjölmiðla í garð Bandaríkjanna. Ég spyr enn og aftur: Er hæstv. utanríkisráðherra að vísa til þingmanna í þessum sal, sem hafi haldið uppi glórulausum fordómum á hendur Bandaríkjamönnum? Ég vísa því a.m.k. algjörlega á bug að við jafnaðarmenn höfum talað í þá veru. Þvert á móti höfum við gagnrýnt með heilbrigðum hætti ýmis athæfi Bandaríkjaforseta og ég er efnislega algjörlega ósammála yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra sem hann sendi frá sér í kjölfar bandarísku kosninganna, að heimurinn yrði friðvænlegri en ella vegna endurkjörs Bush Bandaríkjaforseta. Ég held þvert á móti að Bandaríkjamenn, sem þó með lýðræðislegum hætti tóku sína ákvörðun, hafi misst af gullnu tækifæri til þess að gera Bandaríkin aftur að þeirri forustuþjóð lýðræðis og friðar i heiminum sem hún á að vera þegar þeir höfnuðu John Kerry, frambjóðanda demókrata.

Frú forseti. Ég hef ekki tímans vegna getað farið yfir fjölmörg önnur atriði sem ástæða væri til að staldra við, Íran, Palestínu, Ísrael. Ég vil að lokum undirstrika mikilvægi þess að umræða af þessum toga verði efni™leg og innihaldsrík og með þeim hætti að almenningur allur, ekki bara við þingmenn, geti tekið virkan þátt í henni. Utanríkismál eru innanríkismál.