131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:32]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að taka á þessu. Það er von. Staðreyndin er sú að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga, samkvæmt öllum skoðanakönnunum, var andvígur innrásinni í Írak. Um allan heim harma menn hvernig komið er og hafa af því miklar áhyggjur að okkur takist ekki að rjúfa þann vítahring haturs og hryðjuverka sem nú er hafinn. Yfir 100 þúsund manns, þar af yfir 50 þúsund konur og börn, hafa verið drepin í stríðinu í kjölfar innrásarinnar. Af þessu hafa menn áhyggjur, en ekki hæstv. utanríkisráðherra.

Síðan væri ástæða til að taka góða og efnismikla umræðu um aðdragandann að stríðinu, um viðskiptaþvinganir sem Írakar voru beittir í áraraðir sem urðu að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna þess valdandi að um 1 milljón lét lífið af orsökum sem beinlínis eru raktar til þessa. Þetta eru staðreyndir sem enginn vefengir. Nú segir hæstv. ráðherra að þetta hafi verið til góðs og íslenska ríkisstjórnin styðji enn sem áður árásina á Írak. Þetta er í hróplegri andstöðu við umræður í þjóðþingum allt í kringum okkur. Þar reyna menn að horfast í augu við staðreyndir málsins, líka óþægilegar staðreyndir. Það er ríkisstjórnin og hæstv. utanríkisráðherra greinilega ófær um að gera.