131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:53]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan að hún sagði eitthvað á þá leið að við Íslendingar yrðum að vera áfram á lista hinna svokölluðu staðföstu þjóða í Írak, þ.e. þjóðanna sem studdu innrásina í Írak á sínum tíma, því að annars gætum við ekki tekið þátt í uppbyggingu í landinu eftir að þeirri ömurlegu styrjöld sem þar geisar nú er lokið. Mér finnst mjög mikil þversögn í þessum málflutningi. Mig langar í því sambandi að benda á að við Íslendingar höfum aldrei skorast undan því að stunda hjálparstarf, hjálpa þjóðum í neyð, til að mynda eftir styrjaldir og ég fær ekki séð að við þurfum endilega að vera á lista yfir einhverjar þjóðir sem ráðast inn í fullvalda ríki til þess að geta síðan tekið þátt þar í hjálparstarfi eftir að ósköpunum linnir.

Ég vil líka benda á að hæstv. utanríkisráðherra upplýsti okkur í ræðu sinni áðan að við erum að auka mjög framlög okkar til þróunarsamvinnu. Það er í sjálfu sér mjög gleðilegt. Framlög okkar til þessa hafa fjórfaldast á síðastliðnum áratug og ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að stighækka þessi framlög þannig að árið 2009 nái þau 0,35% af vergri landsframleiðslu. Þetta eru að sjálfsögðu mjög ánægjuleg tíðindi og undirstrikar enn og aftur, að mínu mati, að við Íslendingar þurfum síður en svo að skrá okkur á lista yfir þjóðir sem stunda styrjaldarrekstur eða styðja styrjaldarrekstur til þess að geta veitt bágstöddu fólki hjálp víða um heim eða stundað þróunarsamvinnu að öðru leyti.