131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:03]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við getum alveg farið í slíka sögulega skoðun hér og það er kannski við hæfi. Það er a.m.k. ljóst að Framsóknarflokkurinn telur að EES-samningurinn hafi skilað góðum árangri en á sínum tíma var þetta erfitt mál í flokknum og það er kannski ekkert óeðlilegt því þetta er stórt mál í hverju samfélagi.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir reyndi að gera lítið úr hlut Framsóknarflokksins varðandi afkomuna hér á landi og talar um að þegar Alþýðuflokkurinn var í ríkisstjórn hafi verið aflabrestur og allt hafi verið svolítið erfitt. (Gripið fram í.) Jú, jú, en menn verða að taka á erfiðleikum í sínum samfélögum. (Gripið fram í.) En ég vil þá líka minna á eitt mál sem hefur verið mjög stórt í umræðunni núna og erfitt hjá okkur og það er Kárahnjúkavirkjun og nýting orkunnar. Það er ágætt til að minna á að pólitískir flokkar taka ákvarðanir til að reyna að koma hjólum atvinnulífsins í gang og fá efnahagsleg umsvif. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir einmitt í áliti sínu að vegna þeirra framkvæmda séu hér mikil umsvif í efnahagslífinu. Þetta er mikil innspýting. En þar voru ekki allir sammála, Samfylkingin studdi reyndar það mál, nánast öll, reyndar ekki hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. (Gripið fram í.)

Maður verður líka að líta til þess að stjórnmálaflokkar þurfa að taka ákvarðanir. Stundum eru þær erfiðar en þær geta sýnt sig að verða mjög til góðs þegar fram í sækir. Við skulum ekki spá fyrir um þessa virkjun en ég trúi því að hún verði til góðs eins og EES-samningurinn. Ég ætla samt ekki að líkja því saman en þetta sýnir hvað viðfangsefnin eru oft erfið og erfitt að sjá inn í framtíðina hvernig mál æxlast.