131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að vera með einhverja heift við að skilgreina orð mín. Mér finnst það óþægilegt að hafa ekki nafnið á þeim ágæta embættismanni en þetta er bara staðreynd sem talar sínu máli. Við höfum oft rætt þetta, ég og formaður utanríkismálanefndar.

Það sem gerst hefur er að við höfum staðið í endalausum viðræðum þar sem menn hafa viðhaft góð orð. Staðreyndin er hins vegar stöðug fækkun á vellinum, án þess að útkljáð hafi verið mál varðandi varnarsamninginn. Reyndin er sú að kafbátavélarnar eru farnar þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar og að dregið hefur verið saman frá mánuði til mánaðar. Ég nefndi þessa ræðu og þennan merkilega fund af því að allt sem hefur gerst er í samræmi við þá leið sem sá háttsetti embættismaður lýsti að Bandaríkjamenn vildu fara. Það er hins vegar ekki það sama og sagt hefur verið við íslensk stjórnvöld þegar náðst hefur að funda um málið.

Ég sagði jafnframt að mér þætti óþægilegt hvað umræðan væri kvik. Við viljum vera í varnarsamstarfi. Af því að þingmaðurinn nefndi minn flokk þá vill minn flokkur vera í NATO. Hvort einhver niðurstaða verður af öllum þessum viðræðum og einhver afgreiðsla skal ósagt látið. Verður þetta þannig að við sameinumst um að niðurstaðan verði sú að við förum inn í aukið samstarf á vettvangi NATO? Það ætla ég ekki að kveða upp úr um hér. Það á eftir að koma í ljós varðandi þá þróun mála.

En það þýðir ekkert að berja hausnum við steininn og segja að okkar foringi tali við foringjann í bandaríkjamálunum og þá sé sambandið afar gott, ef staðreyndirnar tala öðru máli. Ég er ekki með stórar yfirlýsingar. Ég segi: Umræðan er kvik og það er óþægilegt.