131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:48]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hv. þingmaður vera með dálítið stórar yfirlýsingar og hún gerði það á vissan hátt með þögninni. Hv. þingmaður sagði: Jú, við viljum vera í NATO. Punktur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fylgjum eftir þeirri stefnu okkar frá árinu 1951 sem er varnarsamningurinn við Bandaríkin. Það er á þeim grundvelli sem menn vinna.

Mér finnst að hv. þingmaður geti ekki horft fram hjá því að fram hafa farið viðræður fyrr á þessu ári og munu einnig verða eftir helgina, viðræður á milli æðstu forsvarsmanna tveggja fullvalda ríkja til að ræða málin á þeim grundvelli. Það skiptir miklu máli þegar hæstv. forsætisráðherra fer til viðræðna við forseta Bandaríkjanna. Það skiptir einnig miklu máli þegar hæstv. utanríkisráðherra fer til viðræðna við utanríkisráðherra Bandaríkjanna til að ræða þessi mál sem við erum hér að fjalla um. Þótt hv. þm. muni ekki nafnið á einhverjum bandarískum manni sem talaði uppi í háskóla þá finnst mér það ekki skipta miklu máli í þessari umræðu. Aðalatriðið er auðvitað hin pólitíska stefnumótun.

Það er rétt hjá hv. þm. að það hafa orðið breytingar á Keflavíkurflugvelli. En það breytir hins vegar ekki því, virðulegi forseti, að á æðstu stigum eru menn í viðræðum með ákveðið markmið í huga, þ.e. að tryggja til frambúðar varnarskuldbindingar Bandaríkjanna gagnvart Íslandi. Mér finnst allar þær yfirlýsingar sem komið hafa fram, ekki síst yfirlýsing forseta Bandaríkjanna eftir viðræðurnar við hæstv. forsætisráðherra á sínum tíma, sýna að Bandaríkjamönnum eru vel ljósar skuldbindingar sínar, ella hefði forseti Bandaríkjanna ekki talað með þeim hætti sem hann gerði.

Mér finnst ástæðulaust af hv. þm., sem ekki treystir sér til að fullyrða að stefna eigi að því að halda uppi varnarskuldbindingunum milli Íslands og Bandaríkjanna, að tala eins og hún gerði, að reyna að gera lítið úr því sem er að gerast milli tveggja fullvalda þjóða, þessara tveggja gömlu vinaþjóða.