131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:52]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er standardumræðan um þessi mál. En engu að síður tala tölurnar og staðreyndirnar sínu máli. Þær tillögur sem seinna verða að gerðum og tilskipunum Evrópusambandsins eiga hér um bil allar uppruna sinn í fagnefndum á vegum framkvæmdastjórnarinnar. Þar höfum við fullan aðgang. Við höfum verið þátttakendur í þeim. Við getum hins vegar ekki verið þátttakendur alls staðar. Við gætum það heldur ekki ef við værum innan Evrópusambandsins. Þar starfa einar 430 nefndir og guð almáttugur hjálpi okkur ef við ætlum að reyna að manna þær allar saman, jafnvel þó við værum innan Evrópusambandsins.

Það sem blasir við er í fyrsta lagi að við höfum aðgang að fagnefndum og við höfum verið að nota okkur það. Þar höfum við haft heilmikil áhrif á sviðum sem við höfum talið henta okkur.

Í öðru lagi, varðandi ráðherraráðið, þá þekkjum við það líka að fagráðherrarnir eru kallaðir til, fagráðherrar utan Evrópusambandsins. Okkar fagráðherrar hafa komið að slíkum málum og þar eigum við margvíslegan aðgang.

Í þriðja lagi finnst mér menn gera lítið úr hlutverki Alþingis, þingmanna, í því að reyna að hafa áhrif á síðari stigum gagnvart Evrópuþingmönnum, gagnvart Evrópuþinginu, á þeim pólitíska vettvangi þar sem við störfum annars staðar, í flokkahópunum, í öðrum stofnunum og í góðu samstarfi okkar við Evrópuþjóðirnar.

Virðulegi forseti. Ég held að það séu allt saman miklar ýkjur að við höfum ekki möguleika á að hafa alls konar áhrif. Við höfum hins vegar ekki viljað ganga í Evrópusambandið af margvíslegum ástæðum sem ég hef ekki tíma til að útlista. En hv. þm. vill kannski segja okkur að leiðin fyrir okkur sé að ganga inn í Evrópusambandið sama hvað það kostar.

Ég vakti hins vegar athygli á því áðan í ræðu minni að Evrópusambandið væri að breytast, væri að þróast í allar mögulegar áttir og staða Evrópuríkja innan Evrópusambandsins sjálfs væri mismunandi. Þær tækju misjafnlega mikinn þátt í heildarstarfi Evrópusambandsins (Forseti hringir.) og ég vildi undirstrika að EES-samningurinn mun hafa miklu sterkari stöðu í framtíðinni en margir vilja láta.