131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið fremur áhugaverð umræða og margt sem ber á góma þegar utanríkismál eru rædd heilan dag á hæstv. Alþingi og við verðum auðvitað að velja okkur meginatriði í því sem við ætlum að ræða.

Ég er sammála orðum hæstv. utanríkisráðherra um mikilvægi norræns samstarfs fyrir Ísland. Ég vil nota tækifærið í upphafi ræðu minnar og þakka stuðning við tilnefningu mína til forseta Norðurlandaráðs. Ég met þann stuðning afar mikils og þakka hlý orð í minn garð, ekki síst hlýjar kveðjur sem Siv Friðleifsdóttir sendi mér í umræðunni í dag.

Það eru miklar hræringar í Evrópu vegna stækkunar ESB sem er orðin um 25 lönd. Þeirri stækkun er ekki lokið og vinnan við hana heldur áfram, en á þessum tímapunkti beinum við sjónum okkar ekki síst að nýjum, fátækum nágrannalöndum í austri. Það fer því ekki hjá því að Norðurlandaráð skoði hvernig best sé unnið, bæði í innra starfi þess og í Evrópu, þar sem Norðurlandaráð vill halda uppi öflugu þingmannasamstarfi og vera mótandi og ekki síst vinna að mótun í þróun svæðasamstarfs í Evrópu. Þess vegna hafa verið settar fram ýmsar hugmyndir á allra síðustu missirum um hvernig norrænt samstarf eigi að verða, hvort e.t.v. eigi að sameina Norðurlandaráð og Eystrasaltslöndin þrjú, en þau hafa átt samstarf innbyrðis og hafa einnig unnið með Norðurlandaráði, mér finnst þær raddir samt hafa hljóðnað. Það er jafnvel talað um að þróa þingmannasamstarf í Norður-Evrópu, stórt og mikið þingmannasamstarf, sem muni fylgja einhvers konar svæðasamstarfi. Þá skiptir auðvitað máli ef það á eftir að verða hvernig unnið er innan þess og hver hlutur Norðurlandaráðs verður þar.

Þess vegna var mjög ánægjulegt að á fundi forsætisnefndar með forsætisráðherrum á Norðurlandaþingi í síðustu viku kom afdráttarlaust fram hjá forsætisráðherrum, ekki síst hjá Halldóri Ásgrímssyni og Göran Persson frá Svíþjóð, að það ætti að byggja áfram á því öfluga kjarnasamstarfi sem Norðurlandaráð viðhefði.

Mér finnst ástæða til, vegna þróunar umræðunnar í morgun, að nefna það sem Göran Persson nefndi oftar en einu sinni á Norðurlandaþinginu, að þrátt fyrir að Norðurlöndin hefðu valið sér ólíkt samstarfsform í tilteknum málum, ekki síst utanríkismálum — t.d. hafa Norðurlandaþjóðirnar ýmist valið að vera innan eða utan NATO og sumar hafa valið að vera innan Evrópusambandsins en aðrar utan þess — þá væri full eining í samstarfi Norðurlandanna innbyrðis um grundvallaratriðin og það yrði áfram og á því yrði byggt.

Þetta skiptir afar miklu máli þegar við erum að tala um okkur í Evrópu að muna að í gegnum Norðurlandaráð erum við mjög sterk í Evrópu.

Í ræðu sinni kemur utanríkisráðherra jafnframt inn á norðurskautssamstarfið. Ég sit fyrir hönd Norðurlandaráðs í norðurskautssamstarfi þingmanna og ég minni á að þetta samstarf varð til að frumkvæði Norðurlandaráðs og samkvæmt tillögu frá Íslandi. Nú hefur það sýnt sig að þetta starf er mjög mikilvægt. Það hefur orðið geysilegur árangur af því, ekki síst hvað varðar rannsóknarverkefnið um loftslagsbreytingar og allir gera sér grein fyrir því að afleiðingarnar geta haft geigvænleg áhrif á lífslíkur hér uppi við norðurskaut. Það er því afar brýnt að ná saman um aðgerðir til úrbóta.

Mér finnst það mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að Rússar og Kanadamenn hafa verið mjög virkir í þingmannasamstarfinu, en það er verulegt áhyggjuefni hve illa hefur gengið að fá Bandaríkjamenn með í þingmannasamstarfið. En eftir kosningar í Alaska í vor kom inn þingmaður sem e.t.v. mun koma og taka þátt í þessu samstarfi, um það hafa vaknað vonir.

Samstarf Norðurlandaráðs við Rússa fer nú fram í gegnum norðurskautssamstarfið, í gegnum Barentssamstarf og á vettvangi Eystrasaltsráðstefnunnar. Jafnframt er stefnt að því að reyna að byggja brú inn í Norðvestur-Rússland, ekki síst út af umhverfismálunum og mannréttindamálunum, og að reyna að ná upp einhvers konar þingmannasamstarfi við Norðvestur-Rússland. Það yrði auðvitað á öðrum nótum þar sem það væri við landshluta en ekki land.

Virðulegi forseti. Ég kýs að gera Sameinuðu þjóðirnar að meginumfjöllun ræðu minnar. Ég er frekar vonsvikin yfir því af því hæstv. utanríkisráðherra er ekki í salnum.

(Forseti (ÞBack): Hann er í viðtali.)

Já, það er gott að vita það. Ég hefði haft áhuga á að hann yrði hérna áfram við umræðuna, en hann er búinn að sitja mjög vel yfir henni í morgun.

Það eru Sameinuðu þjóðirnar. Ísland stefnir á setu í öryggisráðinu eftir fimm ár. Ég tek það fram, svo ekki sé verið að tala um það sem ekki er sagt í þessum ræðustól, að Samfylkingin studdi þá ákvörðun. Ég hef stutt það mál heils hugar og talið óumdeilt að Ísland mundi reka friðarstefnu á erlendum vettvangi. Mér finnst það grundvallaratriði á hvaða forsendum Ísland fer inn í öryggisráðið. Við höfum verið með friðarboðskap. Við höfum ekki slegist í för með þeim sem jafnvel vilja brjóta í bága við samþykktir Sameinuðu þjóðanna og þannig á það að vera áfram.

Fólk er óttaslegið í dag. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar Evrópa var í rúst og allur heimurinn meira og minna undirlagður. Þá var óskin um að tryggja frið og öryggi á alþjóðavísu sterk. Það var drifkrafturinn á bak við stofnun Sameinuðu þjóðanna. Heimsmyndin hefur breyst, en þörfin fyrir sterk og afkastamikil samtök ríkja, eins og Sameinuðu þjóðirnar, er óbreytt. Það eru 192 ríki sem mynda Sameinuðu þjóðirnar, en þær eru ekki yfirþjóðlegt vald. Þess vegna geta ríki sem starfa innan Sameinuðu þjóðanna farið sínu fram þvert á ályktanir, ef þau kjósa að vinna þannig.

Þess vegna er nú umræða í alþjóðasamfélaginu um að endurskipuleggja þurfi samstarfið og tryggja betur lýðræðislegan ramma um ákvarðanir Sameinuðu þjóðanna og grundvallargildi samstarfsins.

Það er full ástæða til að líta til þess að vandamál mismunandi heimshluta eru ólík. Við búum við nýjar ógnanir sem ekki voru við lýði á þeim tíma sem Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar. Þar er annars vegar átt við hryðjuverkahótanir sem Vesturlönd búa við, sem hafa valdið miklum ótta, og hugsanlega dreifingu eða framleiðslu gjöreyðingarvopna. Hins vegar er svo þriðji heimurinn þar sem vandamálin snúast um fátækt, eyðni, fleiri sjúkdómsfaraldra og ólæsi. Þessi vandamál eru yfirþyrmandi ögrun hvað varðar öryggi og þróun mála í þeim heimshluta.

Þrátt fyrir að við viljum öll sameinast í baráttunni gegn hryðjuverkaógninni og gera allt sem hægt er til að hamla gegn henni og finna lausnir, þá verðum við samt að vera meðvituð um að t.d. á árinu 2001 voru færri sem fórust vegna hryðjuverka í heiminum en sem létust úr eyðni á einum degi í Afríku. Þetta segi ég ekki til að gera minna úr þeirri ógn sem steðjar að Vesturveldunum. Þvert á móti. Ég vil bara draga það fram að Sameinuðu þjóðirnar eru til til að taka á ólíkum málum. Þær þurfa að takast á við ólík stórverkefni á heimsvísu, því þarf skipulag sem gerir kleift að bregðast við á árangursríkan hátt.

Virðulegi forseti. Þá er það öryggisráðið og umræðan um það. Ég var á fundi í Berlín ásamt formanni utanríkismálanefndar, Sólveigu Pétursdóttur, og fyrsti hluti ráðstefnunnar sem við vorum á var um Evrópusambandið og utanríkismál. Sólveig Pétursdóttir bar fram fyrirspurn til Joscha Fischers um hvort spenna væri á milli ESB-ríkjanna vegna ásóknar Þjóðverja í fastasæti í öryggisráðinu og hvort það gæti komið niður á þróun utanríkisstefnu sambandsins. Ítalir, Spánverjar og Pólverjar hafa lagst gegn því að Þjóðverjar fái fastafulltrúa og telja að Evrópa eigi að fá nýtt sæti í öryggisráðinu og að fast sæti eigi að falla í hlut ESB. Fischer var mjög afdráttarlaus, hann sagði að stjórn Þýskalands þætti hugmyndin um fastafulltrúa Evrópusambandsins í öryggisráðinu góðra gjalda verð en þó væri hún óraunhæf við nánari athugun. Ef Evrópusambandið fengi fastafulltrúa hlytu Bretar og Frakkar að missa sín föstu sæti, en álfunni væri mun betur þjónað með þremur fastafulltrúum þjóðríkja en einu sæti ESB. Hann var líka spurður um andstöðu Bandaríkjamanna við að Þjóðverjar fengju fast sæti, og hann benti á að fyrir utan að vera fjölmenn þjóð legðu Þjóðverjar til næsthæsta fjárframlagið til reksturs Sameinuðu þjóðanna og þriðja stærsta framlagið til friðargæslumála. Fischer var mjög afdráttarlaus í þessu og það segir okkur að það mundi náttúrlega varla verða eining um það að þessi tvö stóru ríki, England og Frakkland, færu út úr öryggisráðinu og Evrópusambandið fengi þar eitt sæti. Það verður örugglega þróunin og umræðan fram undan hvernig Evrópusambandið sem ríkjasamband muni endurspeglast í öryggisráðinu.

Samsetning öryggisráðsins endurspeglar valdahlutföllin i heiminum eftir síðari heimsstyrjöldina og valdahlutföll sem eru úrelt í breyttum heimi. Í dag er þýðingarmikið fyrir árangur ráðsins hvernig unnið verður með öryggismálin. Sameiginleg ábyrgð byggir á því að iðnríkin og þróunarríkin taki höndum saman og viðurkenni ólíkar öryggispólitískar ögranir.

Föstu sætin í öryggisráðinu eiga sigurvegararnir fimm úr síðari heimsstyrjöldinni, Bandaríkin, Rússland, Kína, England og Frakkland. Það kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að Ísland styður að Brasilía, Indland, Japan, Þýskaland og eitt Afríkuríki fái fast sæti. Önnur ríki en þau sem hér eru nefnd sem hafa verið í umræðunni eru Indónesía til viðbótar Indlandi og í Afríku Nígería og Suður-Afríka.

Það þarf jafnframt að skoða með hvaða hætti sætin sem ganga á milli landa dreifast. Nefnt hefur verið að búa mætti til einhvers konar lykil sem tryggði að sæti í ráðinu gengi á milli landa á tilteknum svæðum, að sérstök svæði ættu alltaf tryggt að eitthvert landanna innan svæðisins væri í öryggisráðinu. Þetta er mjög áhugavert að skoða af því að við vitum að alls staðar í Evrópu eru sérstök svæði og í öðrum heimshlutum eru landahópar að vinna saman vegna staðsetningar landa sinna, og það sé þá tryggt að jafnvel öll Afríka geti ekki verið utan þess eða jafnvel öll Asía. Þetta er umræða sem við eigum auðvitað að hafa skoðanir á líka á Íslandi.

Það verður að tryggja að unnt sé að leysa ágreiningsmál án þess að grípa til vopnavalds. Það er stóra framtíðarverkefnið. Ég trúi að hægt sé að ná því og stuðla að þeirri framtíðarsýn í gegnum Sameinuðu þjóðirnar.

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað koma aðeins inn á hvernig við vinnum með tilskipanir Evrópusambandsins vegna þess sem kom fram hér í ræðu í morgun. Ég sé til hvort ég fæ tækifæri til að koma inn í umræðuna síðar í dag. Það er full ástæða til fyrir okkur á Íslandi og okkur sem erum í EES-vængnum í samstarfinu í Evrópu að skoða með hvaða hætti hægt er að bæta úr því hvernig við tökum við tilskipunum, að við tökum þær fullunnar án þess að hafa þar nokkur áhrif á og það var einmitt rætt á ráðstefnu sem ég sótti í desember í fyrra í Finnlandi og ég hef áhuga á því að koma inn á það síðar í umræðunni.