131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:50]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddssyni fyrir afar yfirgripsmikla ræðu. Þar kom m.a. glöggt fram hve þátttaka Íslands í samráði og samstarfi ríkja á alþjóðavettvangi hefur verið efld.

Varnar- og öryggismál þjóðarinnar eru afar mikilvæg. Eins og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar er það meginskylda stjórnvalda fullvalda ríkis að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar. Hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson mun í næstu viku eiga viðræður við Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Það er nauðsynlegt að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um framtíð varnarliðsins hér á landi. Engum treysti ég betur til að standa vel að þeim viðræðum sem fyrirhugaðar eru en hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddssyni, en varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna hefur verið einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu.

Hæstv. forseti. Íslensk stjórnvöld hafa aukið framlög til þróunarsamvinnu ár frá ári og hafa þau næstum fjórfaldast síðasta áratug. Gert er ráð fyrir að stighækka þessi framlög þannig að árið 2009 nái þau 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu. Því er það afar mikilvægt sem kom fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra að unnið verði að stefnumótun til næstu fjögurra ára um hvernig auknum framlögum verði varið með sem skilvirkustum hætti í þágu þurfandi þjóða.

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra kom í ræðu sinni inn á hið öfluga samstarf sem við Íslendingar eigum með hinum Norðurlöndunum. Ég vil nota tækifærið og óska hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur til hamingju með það mikilvæga hlutverk sem hún er komin í núna með því að vera forseti Norðurlandaráðs. Það er afskaplega ánægjulegt að Ísland skuli vera þar í forustu en Íslendingar voru í forustu fyrir hönd ráðherranna á síðasta ári og hafa unnið þar afskaplega gott verk sem eftir er tekið á Norðurlöndunum.

Norrænt samstarf þrífst vel. Og eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði mætti jafnvel halda fram að mikilvægi þess hafi aukist. Því er ég hjartanlega sammála, því mikilvægi norræns samstarfs hefur síst minnkað á síðustu árum þrátt fyrir miklar breytingar í okkar alþjóðlega umhverfi. Það má einnig segja að mikilvægi norræns samstarfs sé enn meira á tímum breytinga en þegar stöðugleiki ríkir í alþjóðamálum. Ástæða þess er einfaldlega sú að þegar við Íslendingar eigum eitthvað undir á alþjóðavettvangi og þurfum að koma hagsmunum okkar á framfæri þá eru Norðurlöndin alltaf okkar fyrsta stökk. Við tryggjum okkur stuðning vinaþjóða okkar og með þann stuðning að baki þokum við málum okkar áfram á viðeigandi vettvangi. Það má því segja að Norðurlandasamsamstarfið sé heimahöfn okkar í alþjóðamálum. Þaðan gerum við út þegar við þurfum að gæta hagsmuna okkar. Skýrt dæmi er auðvitað framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna þar sem við eigum stuðning nágrannaþjóða okkar vísan, enda hafa Norðurlandaþjóðirnar löngum verið einhuga um að styðja hver aðra á þeim vettvangi og talið æskilegt að eiga norræna rödd í öryggisráðinu.

Annað sem gerir norrænt samstarf mikilvægt eru auðvitað breytingar í Evrópu þar sem Norðurlönd sem kunnugt er tengjast samtökum og stofnunum með misjöfnum hætti. Þrátt fyrir það eiga þau sameiginlega hagsmuni á vettvangi Evrópumála, eins og hæstv. utanríkisráðherra benti á, og eiga því mikilvæg samráð um þau mál. Á vettvangi Norðurlandasamstarfsins erum við í nánum tengslum við þau þrjú Evrópusambandsríki sem standa okkur næst og hafa mestan skilning og þekkingu á sérstöðu okkar. Það er mikilvægt að eiga þau að nú á tímum hraðra breytinga á Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum hefur reynst einkar happadrjúgt fyrir okkur Íslendinga og stjórnvöld hafa gert vel í því að treysta viðskiptatengsl okkar við aðrar þjóðir. Útrás Íslenskra fyrirtækja hefur verið mikil á undanförnum árum og eykst vonandi enn á komandi árum. Stækkun EES-svæðisins er að sjálfsögðu mikilvægust í þessu sambandi, en fríverslunarsamningar EFTA veita íslenskum fyrirtækjum einnig ný og spennandi tækifæri. Það eru tækifæri sem Íslendingar eru svo sannarlega fúsir að nýta sér og reyna til hins ýtrasta.

Í þessu sambandi vil ég aftur nefna norrænt samstarf en á komandi starfsári verður gerð sérstök úttekt á landamærahindrunum í atvinnulífinu á milli Norðurlandanna. Þrátt fyrir að viðskipti og umsvif fyrirtækja séu auðveldari innan Norðurlanda en innan EES-svæðisins sem heildar þá er það markmið norrænna stjórnmálamanna að gera Norðurlönd að einu markaðssvæði í reynd. Þar sem Norðurlandaþjóðirnar eru smáar er einkar mikilvægt að tryggja atvinnulífi þeirra sem best skilyrði, en stærri heimamarkaður, norrænn heimamarkaður, mundi styrkja samkeppnisstöðu þeirra verulega, bæði innan Evrópu og utan.

Þrátt fyrir að norrænt samstarf þyki ekki alltaf spennandi er það nú svo að stór hluti viðskipta okkar er við Norðurlönd og ég minni á að stór hluti hinnar miklu útrásar íslenskra fyrirtækja hefur einmitt verið til Norðurlandanna.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða og mikla ræðu í morgun sem gefur góða yfirlitsmynd af þeim verkefnum og þeirri breidd sem er í íslenskri utanríkisþjónustu og þeirri uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Ég óska honum alls hins besta í komandi viðræðum við Colin Powell.