131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:56]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að fara yfir þrennt helst hér í fyrri ræðu minni í dag. Vissulega gefur skýrsla hæstv. utanríkisráðherra tilefni til umræðu um mjög mörg mál. Umræðan hlýtur að sjálfsögðu að litast mjög af því hvernig hæstv. utanríkisráðherra fylgir henni úr hlaði. Því verð ég að leyfa mér að segja hér í upphafi, frú forseti, að mér finnst óviðkunnanlegt þegar mætir þingmenn koma hér upp, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, til þess að tína út það sem ekki er sagt. Það er náttúrlega hægt að beita sömu rökum á skýrslu hæstv. utanríkisráðherra og ég gæti eytt 15 mínútum í að ræða það sem ekki er þar skrifað. Slíkur málflutningur dæmir sig sjálfur, frú forseti.

Eins og allir hér vita stendur nú yfir í Reykjavík mikil alþjóðleg vísindaráðstefna um norðurskautssvæðið og loftslagsbreytingar á því. Ráðstefnan er afurð samvinnu Norðurskautsráðsins, landanna átta sem í því sitja. Þar hefur verið lögð fram mjög mikilvæg og í raun söguleg skýrsla um svæðisbundnar loftslagsbreytingar á norðurskautinu, sú fyrsta sinnar tegundar. Fyrir utan þá vinnu sem farið hefur fram á vettvangi samningsins um loftslagsbreytingar hjá Sameinuðu þjóðunum þá er þessi skýrsla sú mikilvægasta sem fram hefur komið um loftslagsbreytingar hingað til. Í raun eru hér heimsfréttir á ferðinni, ef ég má leyfa mér að leggja mat á það.

Vísindamennirnir sem hafa unnið þessa miklu skýrslu benda okkur m.a. á að norðurskautssvæðið í heild hefur á síðustu 50 árum hlýnað helmingi meira en jörðin almennt að meðaltali. Vísbendingarnar sem norðurskautið gefur okkur eru mjög gildar. Þær eru bæði góðar og þær eru mikilvægar, vegna þess að norðurskautið er eins konar barómet á það sem gerist síðar annars staðar á jörðinni. Þar er náttúrufarið með þeim hætti að náttúran og dýralífið er mjög viðkvæmt fyrir öllum breytingum. Það segir til um það sem gæti orðið ef fram heldur sem horfir í losun gróðurhúsalofttegunda.

Þessir vísindamenn benda okkur einnig á að meðaltölin geta blekkt, þó það sé nógu slæmt að heyra að norðurskautssvæðið hafi hlýnað helmingi meira en önnur svæði á jörðunni síðustu hálfu öld þá eru svæði þar innan sem eru að hlýna miklu hraðar. Þar er að verða mjög geigvænlegur svæðisbundinn vandi innan þess mikla flæmis sem norðurskautsísinn og norðurskautssvæðið, landmassinn, er. Hér þarf heldur betur að huga að og ákveða eftir vandlega íhugun og yfirvegun hvað gera skuli.

Mér segir svo hugur að þrátt fyrir það sem samþykkt hefur verið, og sem betur fer gengið í gildi, að Rússland staðfesti Kyoto-bókunina, vitum við að fyrsta bókhaldstímabil loftslagssamningsins mun ganga í gildi og standa frá 2008–2012. Það þarf eigi síðar en í dag að huga að því sem tekur við á öðru og þriðja tímabili þess samnings og langt fram eftir öldinni. Það er stærð viðfangsefnisins. Stærð vandamálsins er slíkt að það má enginn sitja eftir í þeim efnum.

Í því ljósi vil ég inna hæstv. utanríkisráðherra eftir því hvort hann geti alla vega gefið okkur vísbendingu um það sem lagt verður fyrir utanríkisráðherra norðurskautssvæðisins á fundi þeirra í lok nóvember þegar Ísland lætur af formennsku sinni í Norðurskautsráðinu. Hvort tækifærið verði notað, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir benti á áðan, til þess að þrýsta á Bandaríkjastjórn til að taka þátt í samstarfinu af fullri alvöru og einurð, bæði innan norðurskautsins, en ekki síður innan loftslagssamningsins og með því þá vonandi í náinni framtíð að fullgilda Kyoto-bókunina.

Ég geri mér ekki miklar vonir um að afstaða Bandaríkjastjórnar sé breytt, en það þýðir ekki að gefast upp fyrir henni. Vonandi, þrátt fyrir fréttir um að Bandaríkjastjórn hafi m.a. beitt sér gegn því að ákveðin atriði þeirrar skýrslu sem hér er rædd og þeirra vísindarannsókna sem verið er að ræða í höfuðborginni yrðu birt og birt fjölmiðlum, sjá þessir ágætu menn að sér og ákveða með tilstilli okkar og annarra samstarfsþjóða í Norðurskautsráðinu að taka sér tak og taka loftslagsbreytingarnar alvarlega. Það er von mín og ég vænti þess að hæstv. utanríkisráðherra komi inn á það í seinni ræðu sinni hvernig gengið verði í þau mál.

Eins og flestir vita, frú forseti, byggja framtíðarspádómar á verstu hugsanlegu afleiðingum loftslagsbreytinga. Þeir spádómar eru geigvænlegir, en jafnvel þó að miðað væri við lægri mörk hlýnunar, af því að auðvitað eru skekkjumörk í þessum mælingum eins og öllum vísindalegum mælingum, á næstu árum og áratugum er alveg ljóst að ríki heims þurfa öll, ekki síst þau sem eyða mestri orku, mestu bensíni, og þau sem byggjast hraðast upp, eins og t.d. Kína, að horfa á það af mikilli alvöru hvernig eigi með margvíslegum aðgerðum að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni. Það verkefni blasir við og ég vænti þess að ríkisstjórn Íslands beiti sér af fullri einurð í málinu, jafnt innan Norðurskautsráðsins sem og á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Í annan stað langar mig, frú forseti, að gera að umræðuefni ástandið í Írak. Ég get tekið undir með hæstv. utanríkisráðherra að allir fögnuðu því, nema kannski helst sá sem fyrir varð, að Saddam Hussein var steypt af stóli og þurfti ekki lítið til. Ég verð þó að segja alveg eins og er að það er líklega hingað til það eina sem hefur lukkast vel í aðgerðum innrásarherjanna, að ná harðstjóranum Saddam Hussein. Það tókst þó. Því ber að fagna, burtséð frá því hvort menn studdu innrásina á þeim forsendum sem farið var í hana eður ei. Ég vil að það liggi alveg hreint fyrir.

Ég held að það sé líka hægt að fullyrða að hinn almenni borgari í Írak hafi verið ánægður með að vera laus við harðstjórann. Ég held hins vegar að að sama skapi megi segja að sömu borgarar uni hernáminu illa. Fyrir því liggja ýmsar ástæður, sögulegar, þjóðernislegar og að þeir sem fögnuðu komu herjanna hafa nú, einu og hálfu ári síðar, orðið vitni að einu allsherjarklúðri í hvernig mál hafa verið rekin í Írak og hvernig uppbyggingin hefur í raun verið ein samfelld sorgarsaga. Ég er ekki að segja að hinn almenni írakski borgari sé hrifinn af uppreisnaröflunum, ég held reyndar að hann sé það ekki. Ég held að allir vilji að bráðabirgðastjórninni sé gefinn séns, ef svo má að orði komast, og að almenningur vilji allur ganga til kosninga í janúar. Vonandi tekst að gera það alls staðar í Írak, en ekki bara sums staðar.

En margt bendir til þess að stjórnkerfið sé jafnspillt og áður, þó án hinnar kerfisbundnu kúgunar og fyrir það ber að þakka. En kúgunin hefur samt átt sér stað. Þegar hæstv. utanríkisráðherra sagði að mannréttindi væru algild, eins og við vitum öll, horfir það náttúrlega við í öllum aðstæðum, líka þegar í hlut á hernámsliðið sem tekur almenna borgara til fanga af því þeir liggja undir grun um eitthvað og varpar þeim í fangelsi. Eins og allir vita hefur hernámsliðið orðið uppvíst að grófum mannréttindabrotum. Það hefur síst orðið til þess að efla stuðning við það í Írak.

Forsenda uppbyggingarinnar er að friður og öryggi hins almenna borgara sé tryggður. Hvað var gert, frú forseti? Hernámsliðin stóðu ekki vörð við þjóðargersemar Íraka á meðan slegin var skjaldborg um olíusvæðin og olíuhreinsistöðvarnar. Einhverjar mestu menningargersemar sem við eigum hér á jörðunni hurfu og voru eyðilagðar á dögunum og vikunum eftir innrásina. Nýlega kom í fréttum að 380 tonn af sprengiefni sem nota má m.a. til að búa til gereyðingarvopn hefðu horfið undir nösunum á hernámsliðinu.

Mikið hefur verið rætt um öryggi kvenna sem ekki er gott. Það þarf í sjálfu sér ekkert að segja neitt meira um það. Vandi kvenna í Írak er að þær komast oftast nær ekki út fyrir hússins dyr. Síðan má segja að ofan í þetta klúður tókst ekki að tryggja öryggi borgaranna í landinu og var ekki gert þrátt fyrir viðvaranir og þrátt fyrir áætlanir utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna þar um. Það er ekki eins og gagnrýnisraddirnar komi bara úr stjórnarandstöðunni á Íslandi, frú forseti. Um þetta eru miklar deilur í höfuðborg Bandaríkjanna, á milli varnarmálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Deilur sem skrifað er um í útbreidd blöð, New York Times og Washington Post, og talað er um í sjónvarpinu. Þetta virðist ekki berast til eyrna ráðamanna á Íslandi. Það er viðurkennt að sú áætlun sem bandaríska utanríkisráðuneytið, undir forustu Colins Powells, hafi gert um uppbyggingu og framtíð Íraks var að engu höfð af Donald Rumsfeld og félögum og hernámsstjórninni, undir stjórn Pauls Bremers, sem tók fljótlega við. Menn fóru bara með autt blað og ætluðu að flytja inn lýðræðið með þeim hætti sem þeim datt í hug og byrjuðu á því að leysa upp írakska herinn, byrjuðu á því að leysa upp Baath-flokkinn. Þó hann væri ekki kræsilegur stjórnmálaflokkur gerði það það að verkum og upplausn írakska hersins, að þúsundir ef ekki tugþúsundir írakskra karlmanna á besta aldri hafa ekki fundið sér neitt annað að gera eftir þetta en að berjast gegn hernámsliðinu.

Það er ástæða fyrir öllu. Ofbeldi verður ekki til af engu. Ofbeldi verður til í ákveðnum jarðvegi, jarðvegi kúgunar og skilningsleysis og þeim jarðvegi þegar fólk fær ekki að láta rödd sína heyrast og þegar enginn er til að gæta öryggis þess. Það sama má segja um ofbeldi annars staðar, t.d. í Palestínu er jarðvegurinn vissulega frjór fyrir ofbeldi.

Ég sé, frú forseti, að tími minn er næstum á þrotum og ég er aðeins komin á annað atriðið af þremur sem ég vildi gera að umræðuefni í dag. Ég vona að mér gefist tími til þess að koma aftur í pontu og ræða betur bæði það sem þegar hefur verið minnst á og einnig langaði mig að minna hæstv. utanríkisráðherra og alla þá sem hér eru á nýja skýrslu frá Amnesty International sem heitir: Komum taumhaldi á vopnin. Um takmörkun vígbúnaðar allra gerða vopna. Ísland hefur stutt þetta framtak dyggilega og ég þakka það og ítreka mikilvægi þess að takmörkun vígbúnaðar af öllu tagi sé á dagskrá stjórnvalda og hluti af því viðfangsefni og þeim efnum sem við ræðum við umræður um utanríkismál.