131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:14]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að það getur gert gæfumuninn, og mun vonandi gera það í framtíðinni fyrir Íraka, að einræðisherrann er farinn frá. Við höfum séð það áður í sögunni að það hefur skipt öllu máli. En ég er ekki sammála hæstv. utanríkisráðherra um að áætlanir hafi ekki verið fyrir hendi. Þær voru fyrir hendi, þær voru bara ekki notaðar og umræðan um það hvernig aðgerðum og hernáminu hefur í rauninni mistekist að tryggja hið raunverulega öryggi og frelsi Íraka hefur logað um allan heim vegna þess að það liggur fyrir að hernámsstjórnin var vöruð við. Starfsmenn hennar sögðu: Við skulum ekki leysa upp herinn. Við skulum gera þetta með öðrum hætti. Við skulum ekki láta fólk komast upp með að ræna og rupla og stunda gripdeildir.

Allt sem gerðist í upphafi og reyndar líka í framhaldinu hefur kynt undir óánægju og ofbeldi, því miður. Vissulega getur enginn varist sjálfsmorðsárás. Þannig er það. Þess vegna er svo mikilvægt að komast að rótunum, hvort sem við erum við Írak, Palestínu eða einhvers staðar annars staðar. Hvað kemur einstaklingi til þess að murka lífið úr öðrum og sjálfum sér með sjálfsmorðsárás?