131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:15]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sem betur fer er árangur víða að nást í lýðræðisátt. Hverjum hefði dottið í hug fyrir aðeins 5 árum, að ekki bara færu fram almennar kosningar í ríki eins og Afganistan heldur að konur fengju að taka þátt í þeim kosningum? Hver hefði spáð því? En það var auðvitað gert með valdi. Þeirri skipan var komið á með valdi og hefði aldrei verið hægt að koma henni á með öðrum hætti og hið sama mun gerast í Írak.

Vegna þess sem hv. þm. nefndi um loftslagsbreytingar og þær nýju skýrslur sem þar eru að koma er alveg rétt hjá hv. þm. að það er mikill fengur að slíkum skýrslum, en það er líka rétt hjá hv. þm. að allt verður þetta með fyrirvörum, þetta eru spádómar langt fram í tímann. Við sáum til að mynda að fræðimaður sem hér var staddur nýlega á vegum íslensku Veðurstofunnar, að ég hygg, hefur miklar efasemdir um sumar spár varðandi hækkun á hafinu vegna hlýnunar, telur það allt saman ofreiknað og ofspáð og um þetta deila menn.

En meginatriðið held ég að sé að auka skilning á viðfangsefninu og ég hygg að það hafi menn gert með þessu verki, að þó ekkert sé hafið yfir deilur og ágreining fari skilningur á viðfangsefninu vaxandi og muni verða mönnum hjálplegur við að leggja mat á með hvaða hætti þjóðir heims eigi að bregðast við. Ég tel að það hafi ekkert ríki í Norðurskautsráðinu reynt að hafa óeðlileg áhrif á þá starfsemi eða uppbyggingu þeirra skýrslna sem hér eru á ferðinni.