131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:38]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég skora eindregið á hæstv. utanríkisráðherra — og hygg að ég hafi marga með mér í því — að ræða þetta mál, undir liðnum önnur mál þá, á dagskrá þeirra utanríkisráðherranna tveggja 16. nóvember.

Ég fagna líka þeirri yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra að hann sé sammála sendiherranum Gunnari Pálssyni og forsætisráðherranum Halldóri Ásgrímssyni um niðurstöðurnar í skýrslu ACIA, norðurskautsráðsvísindamannanna sem munu nú vera 400, þó að vissulega geti einn Davíð velt öllum þeim Golíötum í vísindalegum skilningi.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur hér með tekið undir það að hinar líklegu afleiðingar hitnunarinnar sem rannsóknin snýst um séu geigvænlegar og geti haft mjög afdrifaríkar afleiðingar á ástandið á norðurskauti og á Íslandi. Ég bíð þess að ríkisstjórnin taki afstöðu í samræmi við það og undirbúi þá framtíð þar sem þetta verður eitt heitasta og erfiðasta pólitíska málið, bæði innan ríkjanna og milli þeirra.