131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:53]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Því hefur verið haldið fram aftur og aftur úr þessum ræðustól að Íslendingar hafi verið blekktir til þess að taka þá afstöðu sem tekin var, um að standa að því að hrekja Saddam Hussein frá völdum. Það vill þannig til að í lýðrðisríkjunum sem þar fóru fremst í flokki, Bandaríkjunum og Bretlandi, hefur þetta verið sérstaklega rannsakað af óháðum aðilum. Þar hefur komið fram að hvorug ríkisstjórnin, hvorki sú breska né sú bandaríska, hafi beitt neinum blekkingum vegna þeirrar ákvörðunar að ganga í það verk að hrekja Saddam Hussein frá völdum og koma á lýðræði í Írak.

Á hinn bóginn hefur komið fram að mat leyniþjónusta þessara ríkja á því hvaða vopnabúnaði Saddam Hussein hefði yfir að ráða reyndist ekki rétt. Hvergi hefur komið fram að forustumenn lýðræðisríkjanna hafi reynt að fá leyniþjónustu af sinni hálfu til að halda einhverju fram sem þóknaðist málstaðnum. Það hefur ekki komið fram, og fjarri því.

Hins vegar trúðu Sameinuðu þjóðirnar því sjálfar að þarna væru slík vopn, enda höfðu þeir vopnaeftirlitsmenn árum saman við að leita að þeim. Það er líka íhugunarefni að nú segja menn að áður en bandamenn komust inn í Bagdad hafi uppreisnarmönnum tekist að næla sér í 300 tonn af skot- og sprengiefni sem hafi ekki fundist. Allir viðurkenna að þessi 300 tonn hafi verið tekin en hafi ekki fundist. Það segir mjög vel söguna af því hversu erfitt er að finna vopn af þessu tagi. Staðreynd var að Saddam Hussein hafði slík vopn en hvort hann hafði látið eyðileggja þau eða ekki á sagan enn eftir að segja okkur.