131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:59]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að það má segja að um mig hafi farið við að heyra ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Í gegnum huga minn fóru ótal hugsanir og í gegnum hjartað tilfinningar sem bentu til þess að við tvö, ég og hæstv. ráðherrann, lifum ekki í sama heimi.

Í mínum heimi geisar mjög alvarlegt stríð í Írak og í Palestínu sem sér ekki fyrir endann á, stríð þar sem tugþúsundir óbreyttra borgara hafa látið lífið. Í mínum heimi ríkir hnattvæðing stórfyrirtækjanna og ráðamenn eru haldnir veruleikafirringu. Í mínum heimi er himinn og haf á milli vestræns lýðræðis og stjórnarfarsins sem komið hefur verið á með vopnavaldi í Afganistan. Í mínum heimi hafa stórfyrirtæki og gróðaöfl raunar grafið svo undan því sem við höfum til þessa kallað vestrænt lýðræði að það er að verða að skrumskælingu. Og í mínum heimi er fólk orðið hrætt við að segja skoðanir sínar ef þær fara gegn stefnu ríkjandi stjórnvalda af ótta við það að það missi vinnuna eða að því verði refsað á annan hátt. Í mínum heimi, herra forseti, kemur fólk saman á alþjóðlegum ráðstefnum, tugþúsundum saman, jafnvel hundruðum þúsunda saman, og reynir að benda ráðamönnum og þjóðum heimsins á það hvers konar villigötur ráðamenn hafa leitt okkur inn á.

Fyrir nokkrum vikum var haldin í London mikil stefna, European Social Forum. Þangað mættu 20 þús. manns til að láta í ljósi áhyggjur sínar af stríðsrekstri og neikvæðum áhrifum hnattvæðingarinnar, áhyggjur sínar af stöðu lýðræðis í veröldinni og áhyggjur af því að stórfyrirtækin eru að verða æ valdameiri og að ítök þeirra í ríkisstjórnum þjóðríkja eru sífellt að aukast.

Árlega er svo haldin enn stærri stefna, World Social Forum, þar sem 100 þús. manns mæta til að ræða framtíð veraldarinnar, fólk sem hvetur til þess að við höngum ekki föst í fortíðinni heldur aðgætum ástandið eins og það er og horfum til framtíðar með það að markmiði að skapa öðruvísi heim.

Ár eftir ár hafa einstaklingar og félagasamtök reynt að vekja athygli heimsbyggðarinnar á tengslum þessara þátta sem ég rakti áðan, stríðs og hnattvæðingar, lýðræðisþróunar og valds stórfyrirtækja, hvernig stórfyrirtækin hafa beina hagsmuni af stríðsrekstrinum, hvernig val þjóðþinganna og lýðræðislega kjörinna ríkisstjórna minnkar stöðugt. Svona mætti áfram telja og þetta eru ekki bara einhverjar saklausar vangaveltur, þetta eru áþreifanleg vandamál.

Eða hver þekkir ekki hagsmuni stórfyrirtækja á borð við Halliburton og Becktel í Írak? Já, þess sama Becktels og er um þessar mundir að reisa 1.500–1.800 manna starfsmannaþorp á Reyðarfirði sem farandverkamennirnir eiga að búa í, þeir sem fyrirtækið ræður á lágmarkslaunum til þess að reisa álver á Reyðarfirði fyrir annað stórfyrirtæki, stórfyrirtækið Alcoa. Ekki er þessi veruleiki svo fjarlægur okkur Íslendingum.

Angi ofurvalds stórfyrirtækjanna er einnig sýnilegur í olíusvindlinu sem hér er nú verið að upplýsa og í auknu umfangi og valdi banka og fjármálafyrirtækja hér upp á síðkastið. Það skyldi þó ekki styttast í að tengsl íslenskra stjórnmálaflokka og íslenskra stórfyrirtækja verði afhjúpuð?

Virðulegi forseti. Þetta er að gerast í mínum heimi og ég hef af því verulegar áhyggjur.

Í ræðu sinni gerði hæstv. utanríkisráðherra að umtalsefni öryggi og varnir lands og þjóðar, eins og hann kallar það. Þar er allt á sömu bókina lært. Öryggið er fólgið í því að hafa fjórar F-15 orrustuþotur staðsettar á Keflavíkurflugvelli og þyrlubjörgunarsveit. Að því er virðist er herinn u.þ.b. að tygja sig til brottfarar, kafbátaleitarvélarnar eru farnar, sjóherinn fækkar mönnum mjög hratt og á þessum tíma er þróunin í öryggis- og varnarmálum í veröldinni einmitt fólgin í fækkun herstöðva þeirra sem eru fastar og hafa fast aðsetur í löndum vítt og breitt. Ef marka má orð Alyson K. Bailes, forstjóra Friðarrannsóknastofnunarinnar í Stokkhólmi, í fréttum í gær munu Norðurlöndin þurfa á næstunni að velja á milli Evrópu og Bandaríkjanna í ýmsum málum, ekki síst í öryggis- og varnarmálum.

Samkvæmt því sem Alyson K. Bailes sagði eru dagar herstöðvarinnar á Miðnesheiði taldir. Samkvæmt því er það lítið annað en óskhyggja sem kemur fram í ræðu hæstv. utanríkisráðherra þegar hann segir að ekki sé til annar raunhæfur valkostur í öryggismálum okkar en þessi nána samvinna og kaup kaups á milli okkar og Atlantshafsbandalagsins.

Hæstv. utanríkisráðherra virðist þegar kominn í mikla tilvistarkreppu vegna þessarar umræðu og er nú á leiðinni að ræða við kollega sinn Colin Powell til að eyða óvissu, eins og hann orðaði það í ræðu sinni.

Að þessu leytinu lifi ég, friðarsinninn og herstöðvaandstæðingurinn, ekki í sama heimi og hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson.

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra gerir að umtalsefni í ræðu sinni þróunarsamvinnuna og þátttöku okkar í þróunarsamvinnu á undanförnum árum. Hann segir frá því hvernig opinber framlög okkar til þróunarsamvinnu hafi næstum fjórfaldast síðasta áratuginn og hvernig ríkisstjórnin hafi sett sér það markmið að stighækka þessi framlög þannig að árið 2009 nái þau 0,35% af vergri landsframleiðslu.

En í hverju hefur þessi hækkun fjárframlaga verið fólgin, hvert hafa þessir fjármunir farið? Jú, fyrst og fremst í Íslensku friðargæsluna. Þróunarsamvinnan okkar, aukningin á fjármununum sem við höfum látið renna í aukna þróunarsamvinnu, hefur farið í Íslensku friðargæsluna.

Hvað er Íslenska friðargæslan? Fyrir skemmstu fór fram umræða um þessa íslensku friðargæslu hérna á Alþingi og álitamálið hvort Íslendingarnir sem sinna störfum friðargæsluliða í Afganistan, sem umræðan snerist um, séu í raun og veru hermenn. Í umræðunni sagði hæstv. utanríkisráðherra þessa félaga okkar, þessa friðargæsluliða okkar, hafa réttarstöðu hermanna gagnvart NATO og að þeir njóti sömu verndar og aðrir hermenn NATO. Hann svaraði því líka til að ekki þyrfti neina sérstaka lagastoð til að senda Íslendinga til útlanda í herþjónustu af þessu tagi, og í umræðu á opinberum vettvangi hefur verið tekið undir þau ummæli ráðherrans.

Hæstv. forseti. Ég spyr um hina siðferðilegu og pólitísku stoð og ábyrgð í þessu sambandi. Íslenskir friðargæsluliðar í Afganistan gegna störfum sínum undir merkjum NATO í hermannabúningum og með alvæpni. Það var einmitt NATO sem réðist inn í Afganistan á sínum tíma. Hvernig má það þá vera að hernámsliðinu í Afganistan skuli jafnframt hafa verið falin friðargæslan í Afganistan? Jú, sú ákvörðun var knúin fram af Bandaríkjamönnum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þar sem þeir koma ævinlega sínu fram. Það var sem sagt NATO sem hertók Afganistan með hersveitum sínum og það er NATO sem þykist vera að gæta friðar þar með þessum sömu hersveitum. Þetta er hæstv. utanríkisráðherra svona ljómandi ánægður með.

Í mínum augum er þetta ósiðlegt, virðulegi forseti, og okkur Íslendingum er til skammar að við skulum taka þátt í þessari vitleysu, heimsvaldastefnu Bandaríkjanna.

Í þessu sambandi langar mig að vitna í grein sem Einar Ólafsson, skáld, friðarsinni og herstöðvarandstæðingur, ritaði á heimasíðu sína fyrir skemmstu, en þar segir hann, með leyfi forseta:

„Það er auðvitað með ólíkindum að Bandaríkin og NATO komist upp með það að ráðast inn í lönd og hernema þau, alla vega hluta þeirra, og kalla svo hernámsliðið friðargæslulið. Og það er með ólíkindum að íslenska utanríkisráðuneytið komist upp með að senda Íslendinga til þátttöku í þessum hernámsliðum með herforingjatitlum og öllu tilheyrandi og kalla þá friðargæsluliða.

Þetta er herlið og ekkert annað, hernámslið meira að segja og þar með innrásarlið, og við skulum bara horfast í augu við það, að Halldóri Ásgrímssyni hefur tekist að koma upp íslenskum her og ekki nóg með það, heldur hefur honum tekist að láta íslenskan her taka þátt í hernámi annarra landa í kjölfar innrása sem ekki standast alþjóðleg lög og sáttmála.“

Ég tek undir þessi orð. Ég tek undir að það bendi allt til þess að við séum að koma okkur upp íslenskum her og ég tel þessa þróun alvarlega, svo ekki sé meira sagt. Ég tel þessa stríðstals sjá stað í þeirri ræðu sem hæstv. utanríkisráðherra flutti okkur hér í dag. Ég vara við því að ríkisstjórn Íslands haldi áfram að gæla við þetta stríð og þessi átök úti í heimi á þeim nótum sem íslensk yfirvöld hafa gert.

Auðvitað verður að harma það að fólkið sem starfar fyrir okkur í þessari íslensku friðargæslu skuli halda því fram að hún færi okkur dýrmæta reynslu og þekkingu sem eigi eftir að mynda þekkingargrunn fyrir ráðuneytið. Það eru hugleiðingar frá Arnóri Sigurjónssyni sem starfar fyrir Íslensku friðargæsluna, og hann vill meina að við eigum eftir að búa til einhvern brunn sem megi sækja í ómælda þekkingu. Ég spyr: Í hvað á að nota þekkinguna sem verður í þeim brunni sem verið er að safna í, þekkingu sem byggir á vopnaburði og hermennskutilburðum á vettvangi stríðs í fjarlægu landi?

Ég spyr hvort það geti verið að þarna sé komið að kjarna málsins. Kannski er það einmitt það að þekkinguna eigi að nota til að gera Íslendingum kleift að taka aukinn þátt í vörnum síns eigin lands, eins og starfshópur sem starfað hefur í utanríkisráðuneytinu frá 1999 taldi nauðsynlegt að unnið yrði að. Í skýrslu þess hóps segir, með leyfi forseta:

„Sjá verður til þess að mögulegt sé að nýta reynslu og þekkingu þeirra Íslendinga sem starfað hafa að friðargæslu á erlendum vettvangi í þágu varna landsins.“

Það er sem sagt verið að safna í sarpinn fyrir íslenska herinn sem allir vita að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hefur dreymt um að stofna. Það er ekki ólíklegt að ríkisstjórnin ætli að láta þetta íslenska herlið okkar leysa bandaríska herliðið frá störfum sem, eins og ég var að segja áðan, er náttúrlega að stórum hluta farið. Þetta hernaðarbrölt íslenskra stjórnvalda hefur ekki átt sér stað með neinni leynd, öðru nær. Við höfum getað lesið það á heimasíðum einstakra ráðherra að allt hafi verið gert fyrir opnum tjöldum, áætlanir sem hljóða upp á 50 friðargæsluliða árið 2006 og 740 millj. kr. árlegt framlag undir því yfirskini að verið sé að leggja þróunarlöndum lið. Eins og ég sagði áðan er nefnilega allt það fé sem íslenski herinn kostar bókfært sem þróunaraðstoð. Já, heyr á endemi, herra forseti.

Í niðurlagi ræðu minnar langar mig til að geta um það sem hv. þm. Mörður Árnason og Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa rætt um á undan mér en það er ráðstefna Norðurskautsráðsins og skýrsla sú sem þar hefur verið lögð fram og hefur verið í fjölmiðlum hér að undanförnu. Ég tek undir þau orð hv. þingmanna sem lýsa áhyggjum af ástandinu og ég fagna því í sjálfu sér að það kveður við annan tón í ræðu hæstv. utanríkisráðherra varðandi þetta mál núna en gerði t.d. um áramótin 1997–1998 þegar hann gerði í áramótaræðu lítið úr þeim vísbendingum sem vísindamenn töldu þá vera á lofti. Hann vildi meina að verið væri að mála skrattann á vegginn og talaði um að skrattinn væri æðileiðigjarnt veggskraut. Hæstv. ráðherra er nú greinilega horfinn frá þeim tóni, hefur lesið sér betur til, er farinn að tala um sjálfbæra þróun í ræðum sínum og það er vel. Það er auðvitað vel þegar ráðamenn þjóðarinnar opna augu sín fyrir alvöru mála á borð við hlýnun lofthjúpsins og viðurkenna þær hættur sem það hefur mögulega í för með sér.

Á hinn bóginn þurfum við að standa saman um það, ekki að einblína á ástandið eða spárnar sem liggja í loftinu og menn hafa verið að gefa út í skýrsluformi, heldur verðum við auðvitað að búa okkur undir að takast á við afleiðingar þessara mála, afleiðingar þess að hlýnunin á Norðurskautssvæðinu verði um 4–7 gráður á næstu 100 árum. Afleiðingar þessa verða gífurlegar. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að búa sig undir það af skynsemi að takast á við þær breytingar sem við horfum fram á.

Auðvitað eiga íslensk stjórnvöld að axla ábyrgð sína í þessum efnum. Það hafa þau ekki gert vegna þess að allt ofurkapp var lagt á það að fá undanþágu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Fjölda manns var haldið úti í sendinefndum fund eftir fund til þess að knýja fram ákvæði sem heimilaði Íslendingum losun umfram aðrar þjóðir, ekki bara 10% sem Kyoto-bókunin sjálf gaf okkur heldur 1,6 millj. tonna á ári umfram það.

Slík stefna íslenskra stjórnvalda er til skammar og ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Það er rétt að fara að vinda ofan af þeirri stefnu og skrúfa niður gegndarlausa stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda.