131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:19]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér fróðlegt og áhugavert að rifja upp söguna í þessu sambandi og rifja upp þann tíma sem Sameinuðu þjóðirnar eru stofnaðar upp úr, og forvera Sameinuðu þjóðanna, Þjóðabandalgið. Auðvitað er ekki hægt að líkja þeim tíma sem við lifum á núna saman við þann tíma sem þá var. Þegar Sameinuðu þjóðirnar eru stofnaðar, upp úr síðari heimsstyrjöldinni, eru þær auðvitað stofnaðar til þess að viðhalda friði í veröldinni. Það er meginmarkmið Sameinuðu þjóðanna þó að á þeim tíma hafi ekki verið hægt að finna neina einfalda lausn á því hvernig hægt væri að gera það án þess að einhvern tíma þyrfti mögulega að beita einhvers konar hervaldi í þeim efnum.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þær samþykktir voru gerðar sem liggja til grundvallar stofnun Sameinuðu þjóðanna, og það veit hæstv. utanríkisráðherra alveg eins vel og ég að Sameinuðu þjóðirnar hafa af því baráttu, innri baráttu, vegna þess hvernig til hefur tekist. Stærstur hluti hinna Sameinuðu þjóða er óánægður með stríðsyfirbragð friðargæslunnar, það er bara staðreynd, og það er verið að reyna að finna lausnir. NATO auðveldar ekki að þær lausnir finnist, því miður.

Svo hagræða menn sögunni, nákvæmlega á þeim nótum sem hæstv. utanríkisráðherra gerir, búa til nýjar forsendur fyrir t.d. innrásinni í Írak, staglast á því hér í þessari umræðu að hún hafi verið gerð til þess að steypa af stóli ógnarstjórn Saddams Husseins. Það er bara beinlínis rangt, innrásin var gerð til að finna gereyðingarvopn sem voru ekki til, sem ríkisstjórnirnar sem stóðu að innrásinni eru búnar að viðurkenna að hafi ekki verið til og að ráðamennirnir hafi farið með fleipur þegar þeir héldu því fram að Írakar gætu innan örfárra mínútna gert kjarnorkuvopnaárás á Evrópu. Þetta eru staðreyndirnar í málinu og hæstv. utanríkisráðherra gerist sekur um að hagræða þeim.

NATO og Bandaríkin gerast líka sek um að hagræða staðreyndunum varðandi Sameinuðu þjóðirnar.