131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:22]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hérna inn á mál sem eru örlítið reifuð í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, Evrópumálin og stöðu okkar gagnvart þeim. Ég tel að umræðan um aðild okkar að Evrópusambandinu sé eitt stærsta pólitíska viðfangsefni samtímans, og ég er alls ekki sátt og hef ekki verið sátt við afgreiðslu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Mér hefur fundist hún ódýr. Það á að hafa málið í nefnd, það á ekki að sækja um aðild á þessu kjörtímabili, það á ekki að sækja um aðild fyrr en þá í fyrsta lagi eftir 2007 og það á að halda áfram að fylgjast með þróuninni.

Virðulegi forseti. Eins og ég segi er ég ekki sátt við þessa afgreiðslu vegna þess að hagsmunum Íslendinga væri betur borgið færum við inn í Evrópusambandið hið allra fyrsta. Hvers vegna segi ég þetta? Samfylkingin hefur á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja síðan samninginn undir atkvæði þjóðarinnar. Þar innan raða er vissulega fólk sem vill ganga mishratt til þeirra verka og það má kalla mig express-aðgangssinna. Hvers vegna er ég það? Það ætla ég að fá að reifa hér í örfáum atriðum á þessum mínútum sem ég hef.

Ég vil byrja á EES-samningnum. Það er enginn vafi á því að EES-samningurinn er það sem hefur undirbyggt þá velsæld sem við höfum búið við á Íslandi sl. áratug. Hæstv. fráfarandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, reifar þetta í skýrslu sinni frá 2000 þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Aðgangur að mörkuðum er greiðari, þátttaka í evrópskum samstarfsverkefnum, ekki síst á sviði rannsókna og þróunar, hefur skilað umtalsverðu fjármagni og þekkingu í íslenskt þjóðarbú og samræming leikreglna í atvinnulífi hefur leitt til aukins frjálsræðis og nútímalegri stjórnunarhátta. EES-samningurinn hefur án efa stuðlað verulega að þeim stöðugleika sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.“

Þetta, virðulegi forseti, stendur í skýrslu utanríkisráðherra frá árinu 2000. Hún var að mörgu leyti ágæt og mjög gagnleg. Eins og fyrr segir tel ég að hagsmunum okkar til framtíðar og hagsmunum okkar Íslendinga verði betur borgið með því að ganga í Evrópusambandið. Eins og staðan er nú er gríðarlegur lýðræðishalli á þessum EES-samningi sem við erum aðilar að. Það má í rauninni segja að í gegnum hann séum við aukaaðilar að Evrópusambandinu vegna þess að við tökum við um 70–80% af öllum lagagerðum Evrópusambandsins. Í gegnum EES þurfum við að taka við allri löggjöf um innri markaðinn.

Þarna tel ég að sé gríðarlegur lýðræðishalli í gangi. Við höfum mjög takmarkaðan aðgang að ákvarðanatökuferlinu og framkvæmd EES-samningsins hefur líka breyst töluvert á þessum tíma, þessum 10 árum sem við höfum verið aðilar að EES. Uppbygging Evrópusambandsins hefur sömuleiðis breyst mjög mikið, frá því að vera þar sem vægi framkvæmdastjórnarinnar var mest fyrir 10 árum yfir í það að nú er vægi Evrópuþings og ráðherraráðsins orðið mun meira. Í gegnum EES-samninginn höfum við mestan aðgang að framkvæmdastjórninni.

Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að þetta hlýtur að valda ákveðnum lýðræðishalla og gera okkur erfitt fyrir í því samstarfi að koma sjónarmiðum okkar að. EES-samningurinn hefur ekki fylgt eftir þeim breytingum sem hafa orðið á starfsemi Evrópusambandsins og þess vegna hefur gjáin á milli Evrópusambandsins og EES breikkað töluvert.

Fræðimenn hafa meira að segja orðað þetta svo að við fáum reglugerðirnar sendar, þær komi einfaldlega í pósti. Þetta er tiltölulega harkalega til orða tekið en að mörgu leyti rétt. Þetta er aðvörun eða athugasemd sem okkur ber að hlusta á.

Aðrir fræðimenn hafa líka bent á það að borgarar Evrópusambandsins hafi margvíslegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem við íslenskir ríkisborgarar höfum ekki þegar kemur að stofnunum Evrópusambandsins. Þær byggja auðvitað eins og allir vita á fjölþættu samráði við sérfræðinga, stjórnmálamenn og hagsmunaaðila í aðildarríkjunum.

Ég kom inn á það áðan í andsvari og lagði líka fram í fyrra þingsályktunartillögu um það að gerð yrði úttekt á framkvæmd EES-samningsins. Slík úttekt eða slík könnun var gerð á vegum utanríkisráðuneytisins og henni skilað í nefndaráliti þann 6. júlí 1992. Sú nefnd komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn rúmaðist innan valdheimilda 21. gr. stjórnarskrárinnar en að ekki væri loku fyrir það skotið að þróun samningsins yrði á þann veg að það mat breyttist. Nú, 10 árum síðar, er nokkuð ljóst að breytingarnar sem hafa orðið á skipulagningu innan Evrópusambandsins valda því að þarna er kominn stór efi. Ég leyfi mér að fullyrða að þessir ágætu fræðimenn mundu komast að annarri niðurstöðu í dag en að þetta rúmaðist innan 21. gr. stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Kostir aðildar eru fjölmargir og ég ætla að fá að nefna þó nokkra þeirra. Mig langar í fyrsta lagi að nefna að auðvitað er það kostur að Íslendingar fengju fullan aðgang að innri mörkuðum aðildarríkjanna og þá fulla niðurfellingu tolla á öllum sjávarafurðum sem við flytjum til aðildarríkjanna. Sú er ekki staðreyndin í dag.

Þá finnst mér það kostur við inngöngu í Evrópusambandið að íslenskir námsmenn fengju aukin tækifæri og sætu við sama borð og evrópskir námsmenn við inngöngu í skóla innan aðildarríkjanna, t.d. í Bretlandi.

Þá fyndist mér það einnig kostur við inngöngu í Evrópusambandið að Íslendingar yrðu hluti af stærstu viðskiptablokk í heimi með þeim viðskiptasamningum sem fylgja.

Samkeppni á heimamarkaði mundi stóraukast og kjör neytenda þannig batna. Það má nefna að komið hefur fram í úttektum að matvælaverð í þeim aðildarríkjum, t.d. hjá þeim norrænu ríkjum sem hafa gengið í Evrópusambandið, hefur lækkað um tugi prósentna við inngöngu.

Fleiri atriði mætti tína til, ég tala ekki um ef við gengjum í Myntbandalagið sem ég tel að yrði ótvírætt kostur fyrir íslenskt efnahagslíf og mundi skapa hér stöðugleika.

Helsta bitbein okkar í umræðunni um aðild að Evrópusambandinu er sjávarútvegurinn. Það er ekkert skrýtið vegna þess að þar er um grundvallarhagsmuni fyrir íslenska þjóð að ræða. Það er því ekki undarlegt að við stöldrum við sjávarútveginn í umræðunni um aðild að Evrópusambandinu. Sjávarútvegurinn færir okkur um 40% af gjaldeyristekjum landsins og er um 12% af landsframleiðslunni. 10% vinnuaflsins starfar í sjávarútvegi auk þess sem rúm 60% af öllum okkar útflutningi koma úr sjávarútvegi. Sjávarútvegur er ekki nema um 1% af landsframleiðslu innan ríkja Evrópusambandsins og 0,6% vinnuaflsins þar starfar við sjávarútveg. Það er augljóst að hér er gríðarlegur munur á og miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur miðað við litla hagsmuni Evrópusambandsins.

Hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, kom inn á mjög athyglisverðan þátt í Berlínarræðu sem hann flutti sem utanríkisráðherra í mars 2002 þar sem hann kom með tillögu að lausn á þessu atriði, sjávarútveginum, færi svo að við sæktum um aðild að Evrópusambandinu. Þar lagði hann fram athyglisverða hugmynd sem gæti tryggt stjórn okkar yfir fiskimiðunum til frambúðar ef af aðild yrði. Hann sagði í stuttu máli að vegna legu landsins og veiðireynslu gæti efnahagslögsagan í kringum Ísland verið skilgreind sem sérstakt stjórnsýslusvæði undir stjórn Íslendinga. Þessi hugmynd er mjög góð og að mörgu leyti raunhæf þar sem hún kemur vel heim og saman við reglur Evrópusambandsins, svo sem regluna um hlutfallslegan stöðugleika sem er einn af hornsteinum sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins. Reglan gengur út á að ríki fái í sinn hlut veiðiheimildir í réttu hlutfalli við veiðireynslu ákveðinna ára. Önnur ríki hafa ekki fiskað svo neinu nemur í íslenskri lögsögu í tvo áratugi og því sætum við ein að fiskveiðum hér samkvæmt þeirri reglu.

Þá er ekki síður vert að nefna nálægðarregluna en hún skiptir okkur miklu máli í þessu sambandi. Reglan felur í sér að reynt er að leysa öll mál á lægsta mögulega stjórnsýslustigi. Þannig hefur t.d. eftirlit með fiskveiðum, úthlutun kvóta, verndaraðgerðir og fleira verið fært til einstakra ríkja.

Reglan um það hve háð svæði eru fiskveiðum skiptir okkur einnig gríðarlegu máli. Þá er tekið sérstakt tillit til svæða sem eru mjög háð fiskveiðum. Hjá ríkjum Evrópusambandsins er í langflestum tilvikum um svæðisbundna hagsmuni að ræða en hér á Íslandi er engum vafa undirorpið að um þjóðarhagsmuni og grundvallarhagsmuni er að ræða. Þessi regla mundi því geta átt við um alla efnahagslögsöguna.

Þegar Norðmenn gerðu samning árið 1994 var tekið sérstakt tillit til þeirra svæða sem háð eru fiskveiðum hjá þeim. Þar er einungis um svæðisbundna hagsmuni að ræða. En svo við berum aðstæður þeirra saman við okkar þá eru einungis um 7% af útflutningi þeirra sjávarafurðir en rúm 60% okkar útflutnings. Hagsmunir þjóðanna eru því gríðarlega ólíkir.

Ég vildi koma inn á þetta en þar sem tími minn er að verða búinn þá tel ég að við eigum raunhæfa möguleika á að halda fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum gengjum við til aðildarviðræðna við Evrópusambandið þannig að engar undanþágur séu nauðsynlegar. Við eigum ekki einu sinni að hugsa í þá átt að við þurfum undanþágur. Eins og ég nefndi áðan þá kom fram í hinni ágætu Berlínarræðu fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, góð lausn á þessu máli og raunhæft samningsmarkmið fyrir okkur Íslendinga.

Það getur allt gerst í samningaviðræðum við Evrópusambandið og fyrir því eru fordæmi sem standa okkur nærri, þ.e. aðildarviðræður Finna og Svía þar sem þeir höfðu mikla hagsmuni í landbúnaði og fengu skilgreindan sérstakan heimskautalandbúnað í þeim aðildarviðræðum. Þá varð til heimskautalandbúnaður sem lýtur öðrum lögmálum en landbúnaðarstefna Evrópusambandsins. Þær reglur gilda fyrir landbúnað fyrir ofan 62. breiddargráðu þannig að við höfum fordæmi fyrir því að sérstök svæði séu búin til og ég tel okkur hafa töluvert með okkur í þeim efnum.

Ég sagði áðan að ég væri nokkurs konar express-aðildarsinni að Evrópusambandinu af því að ég tel að spurningin sé ekki um hvort heldur hvenær við sækjum um og förum þar inn. Ég tel gríðarlega mikilvægt að við förum inn á undan Norðmönnum. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að ef Norðmenn fara inn er EES-samningurinn fallinn um sjálfan sig. Þeir bera hann uppi bæði fjárhagslega og félagslega. Sömuleiðis tel ég að ef Norðmenn ganga á undan okkur til samningaviðræðna við Evrópusambandið um sjávarútvegsmál til að fá aðlaganir eða annað þá yrði það byggt á svæðisbundnum hagsmunum, eins og ég kom inn á áðan, en ekki á þjóðarhagsmunum eða grundvallarhagsmunum heldur á svæðisbundnum hagsmunum. Ég tel að það gæti ekki gert okkur gott. Ég tel mikilvægt fyrir okkur að fara inn á undan til að tryggja markmið okkar hvað sjávarútveginn varðar innan Evrópusambandsins.

Ég sé að ég á 30 sekúndur eftir og ætla aðeins að stökkva örstutt yfir í annað mál. Mig langar að taka undir með félaga mínum Þórunni Sveinbjarnardóttur sem skrifaði ágæta grein í vikunni um að hún teldi rétt að við veittum Bobby Fischer pólitískt hæli. Ég hvet ríkisstjórnina til að lesa þá grein og verða við ósk þess ágæta manns.