131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:37]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að byrja á því að hrósa hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir að vera a.m.k. heiðarleg varðandi skoðun sína á Evrópusambandinu. Hún er sannkristinn Evrópusinni og vill ganga hratt inn í Evrópusambandið. En ég hlýt að gera athugasemdir við ýmislegt sem fram kom í ræðu hennar varðandi það samband og kosti þess.

Hún hélt því t.d. fram, sem Evrópusinnar hafa reyndar gert svo árum skiptir, að við Íslendingar innleiddum í kringum 70–80% af öllum gerðum Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Ég leyfi mér að efast um það og vísa til þess að Norðmenn, sem eru í nákvæmlega sömu stöðu og við, hafa ekki innleitt nema um 18% af gerðum Evrópusambandsins í sinn landsrétt. Þetta kom fram í svari utanríkisráðherra Noregs á norska Stórþinginu síðasta vor, í svari við fyrirspurn frá þingmanni þar um. Ég vil því leyfa mér að halda því fram að þær tölur sem þingmaðurinn heldur hér fram séu ýktar.

Mig langar einnig til að spyrja háttvirtan þingmann, vegna þess að Evrópusambandið hefur verið að stækka á síðustu missirum og tekið inn ný ríki: Telur þingmaðurinn virkilega hyggilegt á þessu stigi málsins að ganga beint inn í Evrópusambandið? Væri ekki skynsamlegra að sjá hver reynslan verður af þessari stækkun og hvað hún þýðir?

Hið sama gildir um stjórnarskrárdrög ESB. Þau liggja fyrir og óvíst hvort þau verða samþykkt í þeirri mynd sem þau eru og hafa verið lögð fram. Væri ekki skynsamlegra að sjá fyrst hver þróunin varðandi stjórnarskrána og reynsluna af stækkuninni verður áður en við beinlínis sækjum um aðild eins og háttvirtur þingmaður vill gera?