131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Fram kom hjá hv. þingmanni að hann væri einlægur Evrópusinni en einnig kom fram að sjávarútvegurinn væri mjög mikilvægur og ég get tekið heils hugar undir það.

Mig langar að fá svar við eftirfarandi spurningu. Ef við fáum ekki undanþágu eða sjálfsstjórn í þessum málum, fiskveiðistjórninni, mun þá þingmaðurinn enn þá vera á því að ganga inn í Evrópusambandið? Er það forsenda fyrir því að ganga inn í Evrópusambandið að fá þessa undanþágu eða sjálfsstjórn sem um var rætt? Mér leikur forvitni á að fá það svar, sérstaklega í ljósi þess að ég hef heimsótt fiskveiði- og útvegsbæi í Bretlandi, Danmörku og á Írlandi og séð afraksturinn af fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Hvað sem segja má um fiskveiðistjórn Íslendinga sem er afar slæm, mjög slæm og árangurslítil, þá er árangur Evrópusambandsins jafnvel ívið verri. Þess vegna væri forvitnilegt að fá að heyra hvort forsendan fyrir inngöngunni sé sú að fá undanþágu frá fiskveiðistjórninni eða einhverja ákveðna sjálfsstjórn.