131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:47]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Aftur, ég var ekki að tala um undanþágur. Þetta snýst ekki um undanþágur. Þetta snýst um að fá að halda yfirráðum yfir íslensku efnahagslögsögunni sem liggur ekki að efnahagslögsögu Evrópusambandsins. (SigurjÞ: En ef það fæst ekki?) Ef það fæst ekki — ég vil koma aðeins inn á að það er regla hjá Evrópusambandinu að ganga ekki gegn grundvallarhagsmunum aðildarríkja sinna og sjávarútvegurinn er svo sannarlega grundvallarhagsmunir fyrir okkur Íslendinga. Það er enginn hagur í því fyrir Evrópusambandið að hirða af okkur fiskimiðin og kippa fótunum þannig undan okkur og gera okkur háð styrkjakerfi sínu, einhver eyja úti í Atlantshafi. Ég trúi því ekki og ég tel og vil ekki taka þátt í svona úrtölum fyrr en það er fullreynt.

Ég tel að við höfum góða möguleika á þessu og við skulum ræða það þegar og ef að því kemur. Ef ekki verður af þessu er ég sammála því að ég þarf auðvitað eins og aðrir Evrópusinnar að taka afstöðu mína algerlega til gagngerðrar endurskoðunar. En fram að þeim degi mun ég ganga með þá trú í brjósti að af þessu verði en verði það ekki þarf ég að taka alla mína afstöðu gagnvart Evrópusambandinu til athugunar.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði að árangur Evrópusambandsins í fiskveiðistjórnarmálum er að mörgu leyti afleitur og er alls ekki til fyrirmyndar. Það má líka nefna t.d. eftirlitskerfi þeirra og annað sem ekki er gott. Þess vegna legg ég svona þunga áherslu á að við séum með sterk samningsmarkmið í sjávarútvegsmálum og höldum því til streitu þegar við göngum til aðildarviðræðna að það er okkar stærsta hagsmunamál að halda fullum yfirráðum yfir auðlindinni.