131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:07]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru örfá afmörkuð atriði sem ég vil koma inn á varðandi ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi fagna ég því og vona að þar sé um stefnubreytingu eða áherslubreytingu að ræða í utanríkisráðuneytinu, þ.e. um fyrirætlanir gagnvart Evrópusambandinu. Fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, hefur á köflum í ráðherratíð sinni verið mjög öflugur talsmaður þess að kanna inngöngu í Evrópusambandið og á tímum virtust oddvitar flokkanna sem mynda ríkisstjórnina vera að kljást eða vera í ákveðnum skylmingum um að laða fram með- og mótrök fyrir inngöngunni í Evrópusambandið. En í ræðu hæstv. utanríkisráðherra nú er lögð áhersla á, að því er ég best sé, að byggja samskipti við Evrópuþjóðir á þeim grunni sem núverandi samningur er, þ.e. samningur um Evrópska efnahagssvæðið, og að öðru leyti er líka lögð áhersla á frjáls og óháð samskipti íslenska ríkisins við önnur lönd á eigin forsendum. Ég fagna því og vona að hér sé í bili a.m.k. um áherslubreytingu að ræða í afstöðunni til Evrópusambandsins. Ég vil árétta það hér að ég tel að við eigum alls ekki að sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Við eigum að tryggja stöðu okkar að geta tekið sjálfstæða afstöðu til samskipta og viðskipta við önnur lönd hvar sem er í heiminum en þurfa ekki að gera það í gegnum ríkjasamband eða láta ríkjasamband eins og Evrópusambandið fara með þau mál fyrir okkar hönd, það væri að fórna verulega miklum hagsmunum ef svo færi.

Hins vegar get ég ekki deilt áhuga hæstv. utanríkisráðherra og ánægju með þátttöku Íslands í stríðsátökum á erlendri grund. Það mun hafa verið í kringum 1574 eða svo sem bannað var að bera vopn á Íslandi og síðan hefur Ísland verið vopnlaus þjóð. Það var að vísu gerð lítils háttar undantekning með Vestfirðinga til þess að verjast þar ákveðnum innrásum en lögum samkvæmt höfum við verið vopnlaus þjóð síðan.

Það hefur verið stolt okkar að vera boðberar friðar á alþjóðavettvangi. Við sóttum sjálfstæði okkar á grunni samninga, á grunni sögu og grunni raka sem við töldum að við hefðum fyrir því að vinna sjálfstæði okkar til baka og það reyndist okkur farsælt. Í þátttöku á erlendri grundu höfum við lagt áherslu á að við kæmum fram í nafni friðar, við værum vopnlaus þjóð, við værum herlaus þjóð og þó svo að við værum hersetin ætti þjóðin sem slík ekki eigin her og hefði ekki áætlanir um það. Í samskiptum okkar við aðrar þjóðir í uppbyggingu friðar og að styrkja og efla aðrar þjóðir til þess að verða sjálfbjarga á sem flestum sviðum höfum við miklu frekar lagt áherslu á að taka þátt í uppbyggingu á menntun, í heilbrigðismálum og atvinnumálum þar sem við höfum reynslu og þekkingu til að miðla af. Við höfum komið fram með opna lófa til að bera þann boðskap.

Því var það að mínu viti eins og köld gusa framan í íslensku þjóðina sú einhliða ákvörðun að því er virðist oddvita ríkisstjórnarinnar í fyrsta lagi að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjamanna í Írak og síðan þátttaka eða stuðningur við innrásina þar og í öðru lagi að setja svokallaða íslenska friðargæsluliða undir vopn við gæslustörf í Afganistan. Með því erum við ekki aðeins að brjóta í blað gagnvart íslensku þjóðinni, gagnvart þeirri vitund og þeirri ímynd sem hún hefur talið og vill standa fyrir, með því að hervæða störf okkar á erlendri grund heldur erum við einnig með þessu að beina spjótum að Íslendingum hvar sem er í heiminum með þátttöku okkar í stríðsrekstri af því tagi sem ég hér er að nefna, bæði í Írak og Afganistan. Við erum að láta spjótin standa, við erum að setja Íslendinga úti um allan heim í skotlínu fullkomlega að ástæðulausu og fullkomlega andstætt vilja íslensku þjóðarinnar og við gætum unnið hugsjónum hennar miklu meira gagn með því að taka þátt í öðrum störfum á alþjóðavettvangi. Ég er ekki að draga úr því að við eigum að taka þátt í og miðla af ríkidæmi okkar og reynslu okkar og þekkingu til þess að styrkja aðrar þjóðir til að efla atvinnulíf sitt, menningu, menntun og heilsugæslu, til að styrkja þær til sjálfstæðis og friðar, en okkar styrkur liggur ekki í her.

Mér er mjög minnisstætt viðtal í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum við íslenska konu sem vinnur í Írak. Hún lýsir ástandinu í Írak þannig, með leyfi forseta:

„Við fyrstu augsýn lítur það út fyrir að hafa batnað. Ég mundi segja að það hafi versnað og mín persónulega skoðun er að það eigi eftir að versna enn frekar.“

Og hvað hefur komið á daginn?

Hún lýsir síðan störfum sínum þarna og lýsir því svo yfir:

„Vegna þess m.a. að Ísland var stuðningsaðili að innrásinni í Írak verð ég að fara mjög varlega og sem betur fer hef ég annan passa en íslenskan þannig að ég gæti þess að láta það ekki koma fram að ég sé íslenskur ríkisborgari í Írak.“

Ég hef hingað til litið svo á að það væri metnaðarmál okkar Íslendinga, hvar sem þeir væru, hvort sem þeir tækju þátt í friðarstörfum, þróunarstörfum eða öðrum verkefnum á erlendri grundu að þeir væru stoltir af þjóðerni sínu, þyrftu ekki að leyna því.

Ef litið er á það sem er að gerast í Írak þessa dagana er verið að blása til enn annarrar stórsóknar af hálfu innrásarliðsins þar. Landið virðist loga í borgarastyrjöld. Í fréttum er þessu líkt við ákveðið tímabil í Víetnamstríðinu. Meira að segja framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, varaði við aðgerðunum, bæði fyrir fram og núna og lýsir miklum áhyggjum yfir þeim aðgerðum sem nú standa yfir í Írak. Hjálparstofnanir eins og Rauði hálfmáninn lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þess sem þar er að gerast og telur þær árásaraðgerðir sem nú eru í gangi í engu þjóna íröksku þjóðinni.

Ef litið er til skoðana íslensku þjóðarinnar kom fram í skoðanakönnun sem gerð var í Fréttablaðinu nýverið, þó hún sé aðeins vísbending um ákveðna afstöðu en ekki kosning, að landsmenn virðast skiptast í tvær jafnstórar fylkingar í afstöðu sinni til þátttöku Íslendinga í friðargæslu. Auk þess er það skoðun meiri hluta Íslendinga í könnuninni að friðargæsluliðar í Afganistan séu hermenn á vegum NATO, eins og yfirmenn NATO lýsa yfir og hæstv. utanríkisráðherra hefur lýst því á Alþingi að þeir hafi réttarstöðu hermanna NATO á þessum vettvangi.

Ég vil láta í ljós djúpa hryggð yfir því að við Íslendingar fórum út á þessa braut án þess að haft hafi verið um það samráð við Alþingi, utanríkismálanefnd eða þjóðina. Ég tel að sú stefna sem hefur verið tekin sé í fullkomnu ósamræmi við þá ímynd sem þjóðin vill hafa af sér á erlendum vettvangi. Hún vill taka þátt, hún vill láta gott af sér leiða en að vera þátttakandi í herjum og hervæðast með þessum hætti er henni andstætt, eins og ég hef vikið að.

Frú forseti. Ég vil ljúka máli mínu á því að skora á hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina að draga stuðning sinn við stríðið í Írak þegar í stað til baka. Aðrar þjóðir sem hafa glapist til að styðja innrásina eru núna í ákveðnu uppgjöri, viðurkenna að hér hafi verið um mistök að ræða. Eiturvopnin og gereyðingarvopnin sem áttu að vera í Írak fundust hvergi og það er engin lögleg ástæða þó að Saddam Hussein hafi verið harðstjóri og hafi ekki verið sá þjóðarleiðtogi sem við vildum styðja og teldum að hann hefði átt að fara frá og því fyrr því betra, réttlætir það samt ekki að gerð sé innrás í lönd með þeim hætti sem hér var, ekki síst þegar vitað var að á eftir kæmi borgarastyrjöld sem óvíst er hvern endi fær.

Í borgarastyrjöld er saklaust fólk, almenningur, konur og börn, fórnarlömb. Við Íslendingar eigum ekki að vera þátttakendur í því, við eigum að vera boðberar friðar, við eigum að taka þátt í verkefnum á friðarvettvangi. Þar er styrkur okkar og við eigum að hverfa gjörsamlega frá þeirri stefnu að hervæða Íslendinga á erlendri grund.