131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:47]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi ekki sérstaklega í ræðu minni það sem fór illilega úrskeiðis í fangelsum í Írak, sem hv. þingmaður gat um hér áðan, en það hef ég hins vegar gert fyrr í dag í öðrum andsvörum. Eins og það voru hryggilegir og fordæmanlegir atburðir, þá eru þeir þó einnig dæmi um hvað hefur breyst. Pyntingarnar og allt það sem átti sér stað í fangelsum áður fyrr fékk enginn tækifæri til að upplýsa eða draga menn til ábyrgðar. Þeir sem stóðu fyrir þessum hlutum í Írak á vegum Bandaríkjamanna og bandamanna, hafa þegar verið dregnir fyrir rétt, réttarhöld eru hafin og búið er að dæma í málum sumra þeirra. Yfirmaður fangelsisins var nýlega dæmdur, ég man ekki hvort hann fékk sex eða átta ára fangelsisdóm vegna þessara atburða, þannig að þetta hefur verið gert. Þess vegna er ekki sérstök ástæða fyrir mig til að fjalla um þetta. Ef menn hefðu ekki brugðist við slíkum verkum og þeim hefði verið haldið áfram þá hefði verið sjálfsagt að finna að því og gera það harkalega.

Varðandi Afganistan, þá var því haldið fram að það mætti takast að koma í veg fyrir kosningar vegna þess hvernig málum þar væri skipað. Samt sem áður skráðu 90% kvenna sig til þess að kjósa, jafnvel þó að andstæðingarnir hefðu tilkynnt að þær konur sem skráðu sig til að kjósa væru réttdræpar og sumar þeirra voru sprengdar í loft upp. Þær skráðu sig samt til að kjósa eftir aldalanga kúgun. Það er gríðarlegt framfaraspor og mikill kraftur, þrek og þor, sem þetta fyrrum undirokaða fólk sýndi og það gefur von. Mikla von.