131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:51]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Ég hef svarað því áður að við höfum ekki tekið afstöðu til þessa erindis sem síðast var spurt um og mundum ekki gera það nema að höfðu samráði við utanríkismálanefnd þingsins um það. Þannig að það liggi fyrir.

Vegna þess sem nefnt var um Sharon forsætisráðherra og tillögurnar um Gaza þá ollu þessar tillögur slíkum titringi í röðum þeirra sem voru harðastir í hans eigin flokki að ljóst var að ríkisstjórn hans var að falla og var fallin út af þessu máli. Þá ákvað Simon Perez, einn af helstu leiðtogum Verkamannaflokksins, friðarverðlaunahafi Nóbels ásamt Arafat, sem lést í dag, að koma ríkisstjórn Sharons til hjálpar þannig að hann yrði ekki felldur á þessu máli. Hann taldi þetta svo jákvætt skref í átt til friðar að hann vildi bjarga ríkisstjórn Sharons frá falli til þess að harðlínumenn innan hans eigin flokks, fengju ekki fellt hann vegna þessarar árásar. Jafnframt var öryggisgæsla um Sharon stóraukin vegna þess að óttast var um líf hans af sömu ástæðum og kostuðu Rabin forsætisráðherra lífið. Þetta finnst mér segja heilmikla sögu þó það segi kannski ekki alla söguna.