131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:10]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég var nógu nákvæmur áðan þegar ég ræddi um annars vegar Evrópusambandið og hins vegar Bandaríkin. Samkvæmt þeim heimildum sem ég hef, ef hv. þingmaður hefur betri upplýsingar væri ágætt að fá þær, hefur Evrópusambandið aldrei haft frumkvæði að viðskiptalotum á vegum GATT eða Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég veit ekki til þess, nema það hafi verið Doha-lotan sem ég efast um að Evrópusambandið hafi haft frumkvæði að. Á þessum vettvangi hefur almenna reglan verið sú að ef einhver aðili hefur haft frumkvæði eru það Bandaríkin, en svo sannarlega hafa þróunarríkin líka þrýst mjög á að efla frelsi í viðskiptum og að iðnríkin opni markaði sína, enda er það grundvöllur fyrir velferð þeirra.

Líkt og það hefur verið okkur til hagsbóta að opna markaði okkar er það líka hagur þeirra þjóðríkja að opna markaði sína fyrir öðrum ríkjum. Út á það gengur þetta, þetta gengur ekki bara í aðra áttina. Ég veit ekki til þess að nokkur haldi því fram að það væri skynsamlegt, frú forseti, af Íslendingum t.d. að taka einhver skref til baka varðandi opnun markaða okkar eða lækkun tolla. Ég veit ekki til þess að einhver haldi því fram með fullum rökum að það væri æskilegt. Ef það er stefna einhverra stjórnmálaafla á þingi að það eigi t.d. að hækka tolla á einhverjum vörum eða loka á innflutning á einhverjum vörum er gott að það komi skýrt fram. En það liggur alveg fyrir hvernig þróunarríkin skilgreina hagsmuni sína.