131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:12]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er almennt fylgjandi því að greiða fyrir viðskiptum og hef ekki lagt stein í götu slíks. Hins vegar er ég því fylgjandi að við séum sjálfráð um hvað við gerum í þeim efnum. GATS-samningarnir eru mjög fljótandi samkomulag. Annars vegar er samið um sjálfan grunninn í Doha-lotu og öðrum lotum sem kunna að vera uppi, en síðan eru skeið þar á milli þar sem ríkin semja innbyrðis, setja fram óskir og kröfur sem iðulega fara ekki hátt. Menn geta líka hlaupið í mismunandi þrep samningsins. Það var það sem ég var að vísa í, að eftir Doha-samninginn gátu einstök ríki, þar á meðal við, sett fram kröfur gagnvart viðskiptaaðilum. Það er þetta sem ég var að vísa í að Evrópusambandið hefði gert, reyndar á bak við luktar dyr á sínum tíma, og varð að miklu blaðamáli um alla Evrópu þegar það var upplýst.

Þótt ég telji að aukin viðskipti og samgangur á milli ríkja og þjóða sé af hinu góða og þegar á heildina er litið er það sjálfræðið sem ég vil standa vörð um, ekki síst þegar við skuldbindum okkur til að gera grundvallarbreytingar á samfélagi okkar með því að gefa fyrirheit um að setja t.d. velferðarþjónustuna, vatnsveitur, raforku og annað af því tagi sem flokkast til grunnþjónustu í einu samfélagi, að setja slíkt á markað á óafturkræfan hátt. Það er það sem gagnrýni mín og okkar gengur fyrst og fremst út á.