131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:23]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hinn kaldi raunveruleiki er einfaldlega þessi: Ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða, hvort sem það var í Kosovo, Afganistan eða Írak, væru þeir aðilar sem þá voru við völd í þessum löndum enn við völd; Milosevic í þáverandi Júgóslavíu, talibanar í Afganistan og Saddam Hussein í Írak. Þannig er það. Og þetta er ekkert nýtt í mannkynssögunni. Ef við lítum á seinni heimsstyrjöldina og uppbyggingarstarfið eftir hana fer því víðs fjarri að á einni nóttu hafi tekist að snúa öllum þeim hlutum til hins betra. Þar erum við samt að tala um mun líkari menningarheim og í rauninni minni vandamál, ef þannig má að orði komast, en við erum að horfa á hér. Það liggur fyrir. Og það liggur fyrir að öllum var ljóst að eftir átök eins og þessi bíður þjóða heims gríðarlegt uppbyggingarstarf.

Ef menn eru hér í að rifja upp söguna og segja hvað þeir hefðu átt að gera liggur fyrir að ef menn hefðu farið eftir þeim aðilum sem sögðu að ekki ætti að gera neitt í þessum málum væru enn við völd Saddam Hussein í Írak, talibanar í Afganistan og Milosevic í Júgóslavíu. Svo einfalt er það. Menn verða að reyna að sannfæra þann sem hér stendur um að það væri betra en það ástand sem er uppi núna. Ég er alveg til í að hlusta en ég held að erfitt yrði að komast að þeirri niðurstöðu.