131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:59]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vék hér aðeins að því sem hann nefndi kostnaðarútþenslu í utanríkisþjónustunni. Það er alveg rétt að útgjöld til utanríkisþjónustunnar hafa vaxið á undanförnum árum. En þá verðum við að hyggja að því hvað nákvæmlega búi því að baki. Umræðan úti í þjóðfélaginu hefur verið einhvern veginn sú að risið hafi hvert sendiráðið á fætur öðru og að stórkostlegur vöxtur hafi orðið í rekstrarkostnaði utanríkisþjónustunnar af þeirri ástæðu. Nú hef ég hér í höndum upplýsingar sem sýna það svart á hvítu að rekstrarkostnaður sendiráða Íslands er nánast sá sami núna, og verður á næsta ári, eins og hann var árið 2002.

Það sem fyrst og fremst hefur valdið því að útgjöld utanríkisþjónustunnar hafa aukist er í fyrsta lagi það að við höfum tekið pólitíska ákvörðun um að auka framlög okkar til Þróunarsamvinnustofnunar þannig að þau hafa nú tvöfaldast frá árinu 2000 til næsta árs.

Í öðru lagi var það þannig að til að ná samningum varðandi EES og m.a. í tengslum við stækkun hins Evrópska efnahagssvæðis höfum við neyðst til þess að greiða meira til þróunarsjóðs EFTA sem kemur fátækustu ríkjum Evrópu sérstaklega til góða.

Í þriðja lagi höfum við verið að efla, og það er pólitísk ákvörðun, friðargæslustarfsemi okkar úti í heimi vegna þess að við höfum talið að við sem þjóð bærum ábyrgð á því að reyna að koma á uppbyggingu borgaralegs samfélags víða úti um heim þar sem búið var að leggja það í rúst vegna hernaðarumsvifa. Þess vegna held ég, virðulegi forseti, þó að sjálfsögðu eigi að gæta aðhalds í þessum efnum eins og öðrum, að ég verði að vekja athygli á því að hér er í öllum tilvikum um að ræða pólitískar ákvarðanir sem við höfum tekið á Alþingi. Við höfum viljað leggja áherslu á aukna þróunaraðstoð, aukna friðargæslustarfsemi og við höfum tekið þessa pólitísku ákvörðun til að hægt væri að tryggja áfram starfsemi á hinu Evrópska efnahagssvæði (Forseti hringir.) og þátttöku okkar í því.