131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:03]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi útþensluna og útgjaldaaukninguna í sambandi við sendiráðin þá er þar náttúrlega langhelst til að taka að það var Alþingi sjálft sem ákvað að við skyldum stofna sendiráð í Japan. Þar er auðvitað langdýrasti pósturinn sem við höfum aukið á því sviði. Hv. þáverandi þingmaður, Hjörleifur Guttormsson, barðist mjög fyrir því að þetta sendiráð yrði opnað og það var niðurstaða á Alþingi að það skyldi gert. Við vitum að það kostaði heilmikið í stofnkostnaði en það er allra manna mat að það hafi verið skynsamlegt hjá okkur að kaupa fremur húsnæði þar en að leigja þannig að það dregur til lengri tíma úr rekstrarkostnaðinum.

Stóra málið er auðvitað að við tókum ákvörðun um það í samræmi við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna að auka framlög okkar til þróunaraðstoðar og við höfum gert það mjög myndarlega eins og ég rakti, við erum búin að tvöfalda það. Samt sem áður erum við með lægra hlutfall af okkar þjóðarframleiðslu en margar aðrar þjóðir og heldur en markmiðið kveður á um. Við verðum því að horfast í augu við það hvort við ætlum að standa við það markmið sem við höfum talað fyrir og þjóðirnar hafa verið að krefjast og þá þurfum við væntanlega að bæta þarna enn í. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þurfa menn að ræða það. Teljum við að við eigum að leggja meira af mörkum fyrir fátækustu þjóðirnar í heiminum eða viljum við leggja peningana í einhverja aðra hluti? Það er auðvitað atriði sem við þurfum að ákveða.

Varðandi friðargæsluna þá er það einfaldlega svo að friðargæslan snertir marga hluti. Við erum t.d. í grasrótarverkefni með UNIFEM til þess að styrkja konur, múslimskar konur í fyrrum Júgóslavíu til að taka aukinn þátt í sveitarstjórnarmálum. Mér finnst það mjög göfugt markmið og mjög mikilvægt að við sinnum því. Og mér finnst það skipta miklu máli fyrir það fátæka og smáða ríki, Afganistan, að við stuðlum að því að fólk geti komist til og frá því landi. Við höldum uppi lögum og reglu á flugvelli, rekum flugvöll. Er hægt að hugsa sér nokkurt friðsamlegra og elskulegra starf en einmitt það að tryggja að borgaralegt fólk geti geti ferðast til og frá landinu? (Forseti hringir.) Er það ekki einmitt forsendan fyrir uppbyggingu í Afganistan að tryggja þá starfsemi, flugvallarstarfsemi, og það að fólk geti komist til og frá landinu?