131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:16]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er andvígur frumvarpinu. Við erum einhuga í andstöðu okkar við lagafrumvarpið og höfum bent á aðrar heillavænlegri leiðir til lausnar þeirri alvarlegu deilu sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þjóðin, ekki bara kennarar eða börnin.

Ríkisstjórnin hefur neitað að axla ábyrgð í þessu alvarlega máli og beitir núna fyrir sig börnunum, það sé komin upp svo alvarleg staða að hún eigi ekki annarra kosta völ en að setja lög á verkfallið. Þetta er ekki stórmannlegt og hér er ekki komið fram af þeirri ábyrgð sem hægt er að ætlast til að ríkisstjórn sýni við svo alvarlegar aðstæður.

Eftir því sem ég hugleiði málið betur því verri finnst mér sú niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur komist að. Ég ætla ekki að gera lítið úr vandanum fyrir börnin eða fyrir 4.500 kennara, 4.500 heimili sem staðið hafa í erfiðri kjarabaráttu og verið launalaus í sjö vikur. Nú fær þetta fólk kaldar kveðjur frá ríkisstjórn Íslands. Það er sent heim með lögum bótalaust. Ekki nóg með það, það er bannað með lögum að bæta fólkinu þann skaða sem kergja og þvergirðingsháttur viðsemjandans hefur valdið því í þessu langa og stranga verkfalli, því í lagafrumvarpinu segir að ákvarðanir gerðardóms skuli vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með 15. desember.

Ég minni á að í miðlunartillögu sáttasemjara var kveðið á um sérstakar bætur vegna launaleysis í langan tíma. Nú er það bannað með lögum. Fólkið er sent heim bótalaust. Ekki nóg með það, sett er ól um háls þess og það reyrt við samningaborðið til 15. desember til að horfast í augu við viðsemjandann. Er það ekki gott? Er það ekki það sem menn vildu? Vilja menn ekki leysa málin með samningum? Jú, en ekki eftir að fólk hefur verið svipt því vopni sem það á lögum samkvæmt og samkvæmt hefð og samkvæmt vinnureglum í lýðræðisþjóðfélagi. Það er svipt verkfallsvopninu en skipað að setjast til málamynda að samningaborði fram í miðjan desember. Þetta er til málamynda.

Gerðardómurinn á að komast að niðurstöðu fyrir lok marsmánaðar. En það á ekki að greiða út hugsanlegan ávinning eða hugsanlegar kjarabætur fyrr en mánuði síðar. Þá hafa kennarar verið samningslausir í 13 mánuði. Og í lok skólaársins, takið eftir því, þá á niðurstaðan fyrst að liggja fyrir.

Var verið að tala um sanngirni? Var verið að tala um að koma fram af sanngirni við kennara? Finnst mönnum þetta vera sanngjörn málsmeðferð? Nei. Þetta er ósanngjörn málsmeðferð.

Þar fyrir utan á ekki að skipa kjörum með lögum. Það á að leysa málin með samningum. Nú á Hæstiréttur, eða fulltrúar skipaðir á hans vegum, að ákvarða launin. Við höfum reynslu af því frá fyrri tíð þegar opinberir starfsmenn bjuggu við Kjaradóm. Var hann góður? Já, fyrir suma. Fyrir þá sem stóðu efst í launakerfinu, í kjarakerfinu. Hann hugsaði vel um sína en var afleitur fyrir hinar fjölmennu launastéttir á borð við kennara og sjúkraliða.

Ætla menn að byggja einhver viðmið inn í lög um kjörin? Kjarakerfið á að vera sveigjanlegt og þar eiga niðurstöður að ráðast við samningaborð. Einum finnst menntun skipta mestu máli, öðrum peningaleg ábyrgð. Einn kann að benda á að það sem mestu máli skipti sé að hlynna að ósjálfbjarga alzheimersjúklingi. Það má telja upp fleiri stéttir og fleiri viðmið, það er ekkert rétt né algilt. Kjarakerfið á að vera fljótandi og taka mið af mismunandi viðhorfum í frjálsum samningum.

En hvernig vildum við þá leysa málin? Það er enginn að segja að deilan sé ekki alvarleg, að hún sé ekki í hnút, að hún sé ekki komin í fastan rembihnút.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þingflokkur okkar, lagði fram ákveðnar tillögur til lausnar vandanum. Þegar menn standa frammi fyrir vandamáli ber þeim fyrst að greina vandann og í ljósi þeirrar greiningar og í framhaldi hennar að finna lausnina. Sá vandi sem menn standa frammi fyrir er að sveitarfélögin í landinu eru að semja saman undir regnhlíf launanefndar.

Sveitarfélög á Íslandi eru mjög misjafnlega í stakk búin til að ganga til slíkra samninga. Sum hafa næg fjárráð, önnur ekki. Þetta er staðreynd sem ber að horfast í augu við. Þess vegna lögðum við til að ríkisstjórnin félli frá áformum sínum um skattalækkanir en réðist í skattkerfisbreytingar til að bæta og styrkja fjárhagslega stöðu sveitarfélaganna og gera þeim þannig kleift að ganga til samninga við kennara og aðra starfsmenn sína. Þetta er raunhæf lausn.

Liggur hún á borðinu núna? Hún gæti legið á borðinu, með yfirlýsingu af hálfu ríkisstjórnarinnar, núna, og á grundvelli slíkrar yfirlýsingar væri hægt að leysa málið. Þannig hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð sýnt ábyrgð í málinu og lagt fram tillögu að lausn til frambúðar.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu. Hverjum er sýnt aðhald? Gagnvart hverjum er verið að sýna aðhald? Stórefnafólki, auðjöfrum, sem telja tekjur sínar í milljónatugum, hundruðum milljóna, jafnvel milljörðum. Sá mannskapur er lagður í bómull, það er ívilnað gagnvart honum. Við þurfum ekki að líta upp í þær kjarahæðir, við þurfum ekki annað en að horfa til hins venjulega stórjeppaeiganda, okkar sjálfra, fólksins í þessum sal.

Hverjar eru kröfur kennara sem þarf að beita aðhaldi og skipa heim bótalausu eftir sjö vikna verkfall? Hverjar eru kröfurnar? Þess er krafist að 30 ára einstaklingur sem er kominn á vinnustað eftir margra ára nám fari í 230 þús. kr., ekki núna, ekki á árinu 2004, ekki 2005, ekki 2006 — á árinu 2007. Þetta er fólkið sem ríkisstjórnarbekkurinn ætlar að beita aðhaldi og senda heim bótalaust eftir sjö vikna verkfall og banna með lögum að því verði bættur skaðinn fyrir kergju og þvergirðingshátt viðsemjenda. Var verið að tala um sanngirni? Var verið að tala um að menn ættu að sýna sanngirni?

Þar fyrir utan, frú forseti, er ekki verið að bjóða upp á neina lausn. Það er verið að skjóta alvarlegum vanda á frest.

Ég ítreka fyrri mótmæli þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þessu makalausa frumvarpi og þessum makalausu vinnubrögðum.