131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:31]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er undarlegt að líkja kennurum við svangan hund. Ég tel að kennarar séu ekki svangir hundar og þurfi ekki að éta skottið á sér.

Málið er að þau lífeyrisréttindi sem almenningur í landinu býr við, sem grundvallast á 10% iðgjaldi, eru þau lífeyrisréttindi sem hv. þm. kallar að hundurinn eigi að éta skottið á sér. Það eru þau lífeyrisréttindi sem allir félagsmenn í ASÍ búa við. Af hverju skyldu ekki opinberir starfsmenn og kennarar sem eru að bera sig saman við þetta sama fólk í launum njóta sömu lífeyrisréttinda?

Ef menn vilja fá sömu laun þá fái þeir líka sömu kjör. Ég legg til að menn skoði þessa leið í alvöru, menn skoði það í alvöru að bjóða kennurum að velja á milli 15% launahækkunar og vera með gömlu góðu lífeyrisréttindin eða 35% launahækkunar — eins og kennarar kröfðust — en lífeyrisréttindi eins og meginhluti landsmanna, þ.e. félagsmenn í ASÍ, býr við.