131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:55]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eftirtektarvert að hv. þm. spyr mig um hluti sem ég hélt að ég hefði margsagt í fyrri ræðu minni. Ég sagði að þessi leið frestaði einungis vandanum. Þess vegna var ég að tala um í framhaldinu af því hvernig við ætlum síðan að leysa vandann til frambúðar.

Eru menn búnir að gleyma hvernig málefnum hefur verið hagað milli sjómanna og útvegsmanna? Í tíu heil ár, af því að menn reyndu ekki að vinna á þeim vanda. Ég vil ekki sjá slíkan vanda í menntakerfi landsmanna í tíu ár. Þess vegna er skylda okkar að reyna að koma að því borði.

Það var eftirtektarvert líka að hv. þm. Össur Skarphéðinsson tók ekkert í þá hugmynd mína að reyna að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Hann minntist ekki einu orði á það.