131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:58]

Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt að þessi tími væri ætlaður þingmönnum til að spyrja ráðherra en ekki hæstv. ráðherra til að spyrja þingmenn þegar þingmenn hafa ekki kost á að svara fyrir sig.

Ég vildi beina spurningu til hæstv. ráðherra. Hún sagði í utandagskrárumræðu á þriðjudaginn að menntamálaráðuneytið mundi að sjálfsögðu reyna að tryggja í samvinnu við fræðsluyfirvöld sveitarfélaga og kennara að sú kennsla sem fallið hefur niður vegna verkfalls yrði bætt upp eins og kostur er.

Ég spyr af því að hæstv. ráðherra kom inn á þetta áðan: Með hvaða hætti verður það gert? Hver ber þá kostnaðinn af því? Er hæstv. menntamálaráðherra tilbúin til, eins og hún hefur orðað það svo smekklega, að dæla fjármagni inn í þær stundir sem þarna er um að ræða til þess að bæta nemendunum upp það tap sem þeir hafa orðið fyrir?