131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:05]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra var tíðrætt um það áðan að kennurum bæri að fá mannsæmandi laun. Nú er hugtakið mannsæmandi laun afstætt en svo vill til að ríkisvaldið hefur nýlega sett viðmið fyrir grunnskólakennara. Það er alkunna að framhaldsskólakennarar eru viðmiðunarstétt grunnskólakennara og það viðurkenndi hæstv. ráðherra áðan.

Nú langar mig að vita, hafandi kennt bæði í grunnskóla og framhaldsskóla, hvað í starfsumhverfi framhaldsskólakennara hæstv. ráðherra telur svo mikið öðruvísi en hjá grunnskólakennara að grunnskólakennaranum beri mun lægri laun. Ég ætla að minna hæstv. ráðherra á að það var m.a. samið um það við framhaldsskólakennara að rúmlega fimmtugur kennari kenni 23 kennslustundir á viku og rúmlega sextugur kennari 19 kennslustundir á viku á framhaldsskólastigi.