131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:06]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í raun er ekki óeðlilegt, eins og fram hefur komið, að grunnskólakennarar vilji líta til framhaldsskólakennara. Þegar ég tala um starfsumhverfi var ég fyrst og fremst að hugsa um að grunnskólinn er einsetinn. Það minnkar í raun svigrúm grunnskólakennara til að auka tekjurnar eins og framhaldsskólakennurum gefst tækifæri til. Það munar um 7% á grunnlaunum framhaldsskólakennara, samkvæmt mínum upplýsingum, og grunnskólakennara. Það er eðlilegt að grunnskólakennarar líti til þess en við verðum að skoða þetta í meiri heild en gert hefur verið.

Einsetningin hefur annan brag heldur en fyrirkomulagið í framhaldsskólunum. Við vitum það að framhaldsskólakennarar hafa tækifæri í gegnum fjarnám og í gegnum öldungadeildir til að drýgja tekjur sínar. Það er fyrst og fremst þess vegna að svo mikill tekjumunur er á milli grunnskólakennara og framhaldsskólakennara.