131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:22]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra ræðir um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Þau eru á þann veg að 19. apríl í vor var haldinn fundur í tekjustofnanefndinni. Hvenær var næsti fundur haldinn? Jú, 14. október.

Hvað segja forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og aðilar í tekjustofnanefnd um þá samráðsfundi og annað slíkt? Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði á fjármálaráðstefnunni að þau væru afar ósátt við þá samráðsfundi sem haldnir væru, það væri lítið gagn í þeim, að meðreiðarsveinar ráðherra væru umboðslausir og ráðherra líka. Síðan er boðið í hádegisverð í boði félagsmálaráðherra og fundi slitið. Þetta er efnislega það sem Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur sagt.

Hvað sagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri um tekjustofnanefndina? Hann sagði að það væri dapurt að sitja fundi með umboðslausum einstaklingum fyrir hönd ráðherranna.

Herra forseti. Er nokkur furða að lítið gangi í þessum málum, er nokkur furða að fjárhagslegu samskiptin séu eins og þau eru núna? (Forseti hringir.) Er nokkur furða að sveitarfélögin geti ekkert gert í þessari hörðu kjaradeilu?