131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:30]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir þetta ákaflega mikilvæg yfirlýsing sem hæstv. félagsmálaráðherra gefur. Hann lýsir því í fyrsta lagi yfir að alls ekki eigi með yfirlýsingum ráðherra eða hugsanlegum textum og skýringum á textum í greinargerð með frumvarpinu að túlka þær þannig að gerðardómur eigi ekki að líta á framhaldsskólakennara sem sambærilegan hóp.

Í öðru lagi svarar hann spurningu minni sem lýtur beint að samanburði á kennurum í grunnskóla og framhaldsskóla með þeim hætti að ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að hæstv. félagsmálaráðherra telji eðlilegt að grunnskólakennarar hafi sömu laun og framhaldsskólakennarar. Þetta er mjög mikilvægt innlegg í deiluna, sérstaklega vegna þess að hér er um að ræða þann ráðherra sem fer með málefni vinnumarkaðarins. Það verður líka að draga það skýrt fram að miklu fremur er þetta göfugra og jákvæðara innlegg í málið en staðhæfingar hæstv. menntamálaráðherra sem heldur því fram að framhaldsskólakennarar eigi að hafa betri laun en grunnskólakennarar.