131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:31]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni er einkar lagið að túlka þau orð sem falla hér við þessa umræðu. Ég ítreka það (Gripið fram í.) sem ég hef sagt, bæði í svari mínu áðan og fyrr í þessari umræðu, að ég tel að við eigum ekki að binda hendur þess gerðardóms sem gert er ráð fyrir að taki við störfum frekar en gert er með frumvarpstextanum sem hér er lagður til grundvallar en þar segir, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um laun félagsmanna [...] skal [...] einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.“ Þetta er alveg skýrt.