131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er búið að færa ríkisstjórninni upp í hendurnar lausnina á þessu máli en þar eru menn svo glámskyggnir að þeir koma ekki auga á hana, sem er náttúrlega undarlegt. Lausnin er sú að setja meiri peninga inn til sveitarfélaganna og sjá til þess að þau geti greitt kennurum hærri laun. Meðan ríkisstjórnin telur sig þess umkomna að geta lækkað skatta um 4–5 milljarða kr. á ári þá eru til peningar til að létta sveitarfélögunum þennan róður. Peningarnir eru til staðar en ríkisstjórnin ætlar að forgangsraða öðruvísi, alveg eins og ríkisstjórnin forgangsraðaði öðruvísi þegar hún ákvað stóriðjuframkvæmdirnar austur á landi, sem eru að valda allri þeirri þenslu sem nú er í gangi, og verðbólguáhrifin sem spáð var fyrir og allir vissu að mundu leiða að stóriðjuframkvæmdunum eru farin að láta á sér kræla. Allt þetta hefur ríkisstjórnin auðvitað gert með opin augu, bæði að ákveða skattalækkanirnar og fara út í þensluvekjandi stóriðjuframkvæmdir.

Ég ítreka og segi enn einu sinni: Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar. Það er ríkisstjórnin sem á koma að þessari deilu, hún á að leysa hana á skynsamlegan hátt en ekki á þann hátt sem við erum að deila um hér, að setja lög á þessa kjaradeilu. Ríkisstjórnin er með tækin í höndunum, hún ber ábyrgðina, hún á að axla hana. [Hróp á þingpöllum.]

(Forseti (BÁ): Forseti vill ítreka tilmæli til gesta á þingpöllum að hafa hægt um sig.)