131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:16]

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það eru frekar þung spor að standa hér í dag og ég get eiginlega ekki sagt annað en að mér sé misboðið með þessu lagafrumvarpi. Málið er mér mjög skylt þar sem ég er nemandi í Kennaraháskóla Íslands og get því engan veginn tekið undir frumvarpið. Hins vegar get ég tekið undir orð síðasta ræðumanns og er ekki hissa á því að þeir sem eru á pöllunum hafi séð sig knúna til að klappa fyrir þeim.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum komið málflutningi okkar vel á framfæri í dag og áherslurnar, sem þarf ekkert að tíunda frekar í einhverju málþófi, hafa verið mjög skýrar. Mig langar samt aðeins að hnykkja á því sem stakk mig svolítið þegar ég las frumvarpið yfir í morgun. Kennarar verða búnir að vera samningslausir í um það bil 13 mánuði samkvæmt frumvarpinu þegar kemur að því að þeir fái eitthvað útborgað, eins og maður getur sagt, því ekki hafa þeir verið að fá í budduna sína sem einhverju nemur undanfarnar vikur. Svo finnst manni auðvitað fráleitt að samningsaðilum skuli vera gefinn mánuður í viðbót til að ná samkomulagi, því ástæða frumvarpsins var sú að frekar hefur dregið í sundur með samningsaðilum en að eitthvað hafi náðst saman. Það hljómar því svolítið undarlega að gefa samningsaðilum mánuð í viðbót en svo er ástæða frumvarpsins að deiluaðilar hafi engan veginn náð saman og farið meira í sundur.

Það er líka alveg fráleitt að kennarar fái ekkert í sinn hlut og ekki líklegt til sátta gagnvart kennarastéttinni að bjóða henni upp á slíkt. Það voru þó einhverjir aurar í boði í miðlunartillögunni strax þannig að ég sé ekki fyrir mér að frumvarpið sé til þess fallið, eins og mikið hefur verið talað um af hálfu hæstv. menntamálaráðherra, að ná aukinni sátt á meðal aðila. Aukinheldur gera lögin ekki ráð fyrir því að samningurinn verði virkur nema frá og með 15. desember og ekki til góðs þegar kennarastéttin er í rauninni svelt að samningaborðinu sem hún hefur verið undanfarið.

Viðmiðunin í 3. gr. er auðvitað afar loðin þegar slegið er úr og í á hinni almennu þróun á vinnumarkaðinum. Sambærileg kjör, gæta samt stöðugleika, raska ekki öðrum kjarasamningum. Þetta er í sjálfu sér ekkert ólíkt miðlunartillögunni sem kennarar kolfelldu. Það mátti ekkert hreyfa umfram það sem nú er og þá er náttúrlega ekki hægt að sjá að mögulegt sé að færa kjör grunnskólakennara nær t.d. kjörum framhaldsskólakennara sem er það viðmið sem þeir mundu vilja sjá.

Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Kolbrún Halldórsdóttir, benti á hvernig Danir hafa haft þetta. Þeir endurskoða samninga sína árlega þar sem farið er í gegnum það sem breyst hefur í samfélaginu sem gefur ástæðu til þess að endurskoða samninga.

Maður veltir líka fyrir sér hvert viðmiðið er ef ekki eiga að koma auknir peningar til sveitarfélaganna. Það hlýtur að þýða, ja ekki meira en það sem búið er að bjóða kennurum því ekki sáu sveitarfélögin sér fært að koma til móts við kennara að öðru leyti.

Mér fannst áhugavert þegar hv. þm. Ásta Möller var í pontu áðan að tala um tekjustofna sveitarfélaga og hvað þau hefðu borið úr býtum. Ég kem úr sveitarfélagi þar sem fólksfækkun hefur átt sér stað og útsvarstekjurnar í mínu sveitarfélagi hafa lækkað um 20 millj. kr. á milli ára, 5% árin 2002 og aftur 5% 2003. Í fræðslumálin fara 52% af ráðstöfunartekjum sveitarfélagsins og ekki nóg með að tekjurnar hafi dregist saman því breyttar viðmiðunarreglur í snjómokstri og fleira hafa dregið úr tekjum Jöfnunarsjóðs, þannig að margt kemur til.

Mig langar líka að koma inn á tilfærsluna. Það er mikið búið að tala um að fylgt hafi nægt fé til grunnskólans þegar yfirfærslan átti sér stað. Það hefur líka verið talað um að bætt hafi verið við milljarði. En hverjir settu reglugerðina um aðalnámskrá 1999? Það var ríkisstjórnin, ekki satt, og ráðuneytin sem þar standa að. Þar eru auknar kröfur gagnvart skólunum og ég veit ekki til þess að því hafi fylgt auknir tekjustofnar um leið og settar voru auknar kröfur í aðalnámskrána um þróun í skólunum, uppbyggingarstarf og skóla án aðgreiningar. Þetta kostar allt peninga, en það hefur ekki komið fé með þessum breytingum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gjarnan talað um lífeyrisskuldbindingar. Mér þætti reyndar svolítið gaman að sjá útreikninga, af því að við stöndum hér og ég sem þingmaður í dag, hverjar skuldbindingar ríkisins gagnvart þingmönnum eru. Ég hef tölur fyrir framan mig sem ég fullyrði ekki að séu alveg 100% réttar. Þetta eru grófir útreikningar og hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur þá með einhverjar aðrar tölur. En ef farið yrði eftir ýtrustu kröfum kennara yrðu þetta um 62 milljarðar. Það þýðir 14 millj. kr. á heilstöðugildi grunnskólakennara, miðað við ákveðið reiknilíkan. Þingmenn og ráðherrar fá tvöfalt og ef reiknað er með einhverri sanngirni er lífeyrisskuldbindingin nú tæpar 68 millj. kr. á hvern þingmann. Það eru því 14 millj. kr. á heilstöðugildi grunnskólakennara en 68 milljónir á hvern þingmann. Þá er náttúrlega miðað við þá sem hafa setið lengst. Það er áhugavert að skoða þetta í samhengi.

Mig langar að vitna í grein Tómasar Helgasonar í Morgunblaðinu í gær þar sem hann vitnar í erindi Símonar Jóhannesar Ágústssonar sem birtist í Menntamálum fyrir rúmri hálfri öld og á svo sannarlega við í dag. Hann hefur verið mjög framsýnn maður að mínu viti. Símon bendir á nauðsyn þess að hlúa vel að andlegum, félagslegum og efnahagslegum þörfum kennara til að halda þeim í starfi. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Þar sem starf kennarans er svo mikilvægt, gerir það miklar kröfur til kunnáttu hans og hæfileika, en þó einkum til mannkosta hans, háttvísi og lagni. Þetta ætti að vera hverjum manni ljóst, að minnsta kosti öllum foreldrum sem alið hafa upp 3–4 börn. Þau hafa mismunandi persónugerð, hegðun og þarfir, sem stundum reyna á þolrif foreldranna. Hvað þá með kennarana sem þurfa að sinna 15–25 börnum samtímis oft á mismunandi þroskastigum, þótt jafnaldra séu, margar stundir á dag. Ekki nóg með það heldur þurfa þeir einnig að vera viðbúnir að sinna foreldrum barnanna, oft utan venjulegs skólatíma.

Til þess að kennslan fari vel úr hendi þarf kunnáttu og undirbúning fyrir hverja kennslustund, undirbúning, sem oft tekur jafnlangan eða lengri tíma en sjálf kennslan.“

Hann segir líka að kennarar verði að hafa til að bera lipurð og andlegt jafnvægi til að mæta þörfum barnanna og hafa jákvæð uppeldisleg áhrif á geðheilbrigði þeirra.

„Það skiptir máli að kennarinn finni að starf hans sé metið að verðleikum. Slíkt mat þarf ekki aðeins að koma fram í samskiptum við foreldra og aðra uppalendur, heldur verður það nauðsynlega að koma fram í launum og öðrum kjörum, því að enginn lifir af þakklætinu einu saman.

Heilbrigður og ánægður kennari er verðmætari starfskraftur í þjóðarbúin en flestir aðrir. Slíkur kennari er góður uppalandi og fyrirmynd fyrir nemendurna og stuðlar að geðvernd barna okkar og framtíðarheilsu þeirra.

... en hvað sem því líður, er það staðreynd, að fá störf reyna meira á lipurð, skapstillingu og andlegt jafnvægi.“

Þetta birtist 1953 í Menntamálum. Þetta er, held ég, eins og talað út úr munni kennara í dag. Þetta er nákvæmlega sama staða og við stöndum frammi fyrir í dag.

Ég vil einnig koma inn á dagsetningarnar. Ég held að þær séu ekki til þess fallnar að ná sáttum í kennarastéttinni. Ég skil ekki að gerðardómur geti ekki farið af stað á sama tíma. Ef samninganefndunum væri gefinn þessi mánuður til að horfast í augu, til 15. desember, væri hugsanlega hægt að skipa gerðardóm á sama tíma því fram kemur að nefndirnar eigi að hafa aðgang að gerðardómi til að koma fram með tillögur sínar.

Eins og fram hefur komið hjá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði var frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi í haust og felur í sér heimild sveitarfélaganna að hækka útsvarsálagninguna um 1% er ekki um aukna skattheimtu að ræða hjá sveitarfélögunum þ.e. til þegna sinna heldur er þetta tilfærsla á fjármunum og sveitarfélagið mundi bera töluvert fé úr býtum til að koma til móts við ekki bara kennara heldur allt starfsfólk sitt. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að segja að það á engan að svelta til samninga, hvorki kennara né aðra.