131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:26]

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hryggir mig að standa hér í dag af þessu tilefni, þ.e. vegna frumvarps sem felur í sér lagasetningu á kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga.

Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað að vissulega er uppi mjög alvarleg staða. Börn hafa verið án skólagöngu vikum saman og geta beðið talsvert tjón af því. En sú alvarlega staða er einnig uppi að mikilvæg stétt, kennarastéttin, er á lúsarlaunum. Sú stétt hefur verið á lúsarlaunum svo árum skiptir. Þeim hefur þannig verið haldið niðri af hálfu hins opinbera. Þessi stétt hefur staðið hér úti í dag æf vegna fyrirhugaðrar lagasetningar ríkisstjórnarinnar og er það vel skiljanlegt og tek ég undir þau mótmæli af heilum hug.

Ég ætla áður en ég held áfram að nefna dæmi um laun tveggja ungra kennara á höfuðborgarsvæðinu. Fyrri kennarinn er 38 ára gamall umsjónarkennari í Reykjavík með 22 nemendur, er á þriðja kennsluári sínu og er með 160.749 kr. í heildarlaun og útborgað fær kennarinn 119.546 kr.

Annað dæmi er 30 ára umsjónarkennari í sveitarfélagi í nágrenni Reykjavíkur sem er með 24 nemendur og fjögurra ára starfsreynslu. Sá kennari er með menntun umfram grunnkennaramenntun og gegnir trúnaðarstörfum, kennir 36–38 tíma á viku, en skyldan er 28 tímar, auk þess að vinna í félagsstarfi með unglingum. Þessi kennari fær þá umbun að fá hærri heildarlaun en fyrri kennarinn sem ég nefndi eða sem nema 197 þús. kr. Það sér hver maður að þetta er ekki boðlegt.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði í ræðu fyrr í dag að það þurfi góða kennara, gott fólk í stéttina og til þess þurfi almennileg laun. Eru þetta launin sem hæstv. menntamálaráðherra átti við eða eitthvað nálægt þessu? 160 þús. kr. fyrir skatt. Ég vil að hæstv. menntamálaráðherra segi okkur í eitt skipti fyrir öll hvað hún telji vera góð laun. Annars er þetta einungis óábyrgt hjal út í loftið.

Ungir kennarar eru með miklar byrðar umfram þá sem eldri eru í lífaldri. Þeir eru að stíga sín fyrstu skref í fjölskyldulífi og eru þar af leiðandi oft á tíðum með meiri skuldir, svo sem vegna húsnæðis, hárra leikskólagjalda, sem fara hækkandi, og námslána. Byrði þeirra er því þung á meðan þeim eru boðin þessi lúsarlaun fyrir störf sín sem eru að engu metin að verðleikum af hálfu ríkisvaldsins. Ég vil draga sérstaklega fram í umræðunni stöðu og kjör ungu kennaranna sem eru nýkomnir úr námi.

Eins og menn vita eru miklar tengingar við lífaldur sem hlýtur að teljast sérkennilegt þar sem ábyrgð ungra kennara er ekki síðri en þeirra eldri. Eitt dæmi um þetta er að kennarar eru margir hverjir búnir að mennta sig umfram grunnkennarapróf. Nú er það svo að sama hversu kennarar mennta sig fá þeir það ekki metið í launum fyrr en þeir verða 45 ára, en þá fá þeir sjálfkrafa hækkun til endurmenntunar. Þannig er enginn hvati til endurmenntunar því það er ekki metið í launum heldur fast við aldurstengingu. Kennarar eru auðvitað ósáttir við þetta og er mikill galli á þeim kjarasamningum sem voru gerðir síðast. Þetta ber að mínu viti að leiðrétta.

Virðulegi forseti. Á vef Kennarasambandsins kemur fram að Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hafi látið þau orð falla á fundi í morgun að skólastarf yrði í gíslingu út skólaárið ef frumvarpið yrði samþykkt óbreytt. Undir þetta get ég tekið vegna þess að það að setja lög á þessa deilu með þeim hætti sem fyrirhugað er, er eins og fram hefur komið einungis frestun á deilunni. Fólk er lögsett til vinnu aftur án nokkurra forsendna í frumvarpinu svo mánuðum skiptir og það getur ekki verið skólastarfinu á þessum mánuðum til framdráttar. Hvernig halda menn að mórallinn verði á kennarastofunum á mánudaginn? Halda menn að það verði ánægðir kennarar sem mæta til vinnu á mánudaginn til að taka við börnum landsins eftir langt og strangt verkfall? Það held ég svo sannarlega ekki. Því er það ábyrgðarhluti að hér skuli lögð til lagasetning algerlega forsendulaust þannig að óvissan mun hugsanlega lifa fram til vors meðal kennara um hver kjör þeirra verði dæmd til að vera.

Virðulegi forseti. Eitt það alvarlegasta sem ég tel að geti komið upp á næstu dögum, ef af þessari lagasetningu verður, er að við getum verið að sjá gríðarlegan fjölda kennara segja störfum sínum lausum og að við munum sjá atgervisflótta úr stéttinni meðan kennurum er haldið í gíslingu launalega í allan þennan tíma. Sérstaklega má nefna hina ungu og þróttmiklu kennara með nýju hugmyndirnar sem er ætlað að bera uppi öflugt grunnskólastarf framtíðarinnar. Hvernig ætla menn að halda fólki í stéttinni með þessum vinnubrögðum? Þetta er vel menntuð stétt sem án efa er eftirsótt í önnur störf í samfélaginu. En þessi stétt á fyrst og fremst að vera eftirsótt í kennarastörf. Þó að hún sé ekki eftirsótt af hæstv. ríkisstjórn er hún svo sannarlega eftirsótt af samfélaginu, börnum og foreldrum landsins og fyrir þau erum við á hv. Alþingi að starfa.

Við hljótum að vilja ánægða og góða kennara og hefja þá stétt sem sér um uppeldi barna okkar upp til vegs og virðingar og sýna þeim þann sóma að þeir fái að semja um laun sín með eðlilegum hætti. Til að svo megi verða er auðvitað nauðsynlegt að leysa grunnvanda málsins sem er að mínu viti skipting tekjustofna sveitarfélaga sem hafa verið í ólestri allt of lengi og hér hefur komið ágætlega fram. Nefndin um tekjustofnana talaðist ekki við í sex mánuði á þessu ári á meðan þessi deila vofði yfir. Þar ber ríkisvaldið mikla ábyrgð vegna þess að það hefur í hendi sér tekjur sveitarfélaganna, skammtar þeim beinlínis úr hnefa. Aðgerðir og lagasetningar ríkisvaldsins hafa gríðarleg áhrif á tekjustofna sveitarfélaganna eins og margoft hefur komið fram því ríkisvaldið er svo sannarlega ekkert eyland. Ríkisvaldið setur lög og reglur sem hafa mikil áhrif á störf skólanna, innri störf og tekjustofna sveitarfélaganna. Ríkið setur skyldur og ábyrgð á herðar sveitarfélaganna án þess að því fylgi nægt fjármagn. Fram hjá þessu, virðulegi forseti, verður ekki litið.

Ríkisvaldið verður einnig að viðurkenna ábyrgð sína vegna samninga þess við framhaldsskólakennara sem er sambærileg stétt með sambærilega ábyrgð, en þó má vissulega benda á, og það hefur verið gert varðandi grunnskólakennara og framhaldsskólakennara, að það er vissulega munur á störfum þessara tegunda kennara vegna þess að um grunnskólakennara má segja að þeir bera mun meiri uppeldislega ábyrgð en framhaldsskólakennarar. Það má benda á það í umræðunni og mér þykir mjög mikilvægt að komi líka fram. En framhaldsskólakennarar og grunnskólakennarar voru á pari launalega fyrir þremur árum síðan. Þá samdi ríkið við framhaldsskólakennara þannig að himinn og haf er orðið milli tekna þessara sambærilegu hópa. Þannig hefur ríkisstjórnin komið því fyrir að sveitarfélögin eru ekki samkeppnishæf við ríkið um starfsmenn með svipaða menntun.

Virðulegi forseti. Stjórnvöld hafa talað þannig að ekki væri viðeigandi að setja þessa deilu í samhengi við tekjuskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis. Því hlýt ég að spyrja: Ef það er ekki viðeigandi, hvað er þá viðeigandi í stjórnmálum þegar þetta er langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaganna? Þetta er langþyngsti póstur þeirra allra og svo stór hluti hjá litlum sveitarfélögum að oft er lítið eftir til annarra verka. Slíkur málflutningur á auðvitað heima úti í hafsauga því að auðvitað hangir þetta saman.

Ríkisvaldið hefur ekki viljað koma að deilunni fyrr en nú og hvað er þá gert? Jú, það eru sett lög á deiluna og það afar loðin lög, sérstaklega ef menn lesa 1. mgr. 3. gr. og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa hana. Hún hljóðar svo:

„Gerðardómurinn skal, við ákvörðun samkvæmt lögum þessum, hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila að því leyti sem við á. Við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.“

Virðulegi forseti. Þarna tel ég að menn verði að skýra við hvaða stéttir er átt. Það hefur verið mjög erfitt að fá það fram í þessari umræðu við hvaða stéttir á að miða. Er verið að tala um framhaldsskólakennara? Er verið að tala um hjúkrunarfræðinga? Er verið að tala um sérfræðinga í ráðuneytum? Hér hafa margir kallað eftir svörum við þessu og ég ítreka það kall.

Ríkisvaldið átti auðvitað að koma að deilunni miklu fyrr. Það vissi hver maður í sumar að í þessa deilu stefndi og að mikið bæri í milli hjá samningsaðilum. Hér hefur margt verið sagt og með miklum fagurgala, t.d. af hálfu hæstv. menntamálaráðherra fyrr í dag. Nú er hins vegar komið að efndum þessara orða, ekki frestun vandamálsins með lagasetningu. Það er hreinlega ekki boðlegt. Nú á ríkisvaldið að setjast niður með sveitarfélögum og semja um málið í eitt skipti fyrir öll til framtíðar. Ekki fría sig enn ábyrgð með lagasetningu á borð við þá sem fyrir liggur þar sem ríkisstjórnin ýtir málinu frá sér og frestar deilunni. Menn eiga að ganga í málið og leysa það. Lausnin felst m.a. í auknum tekjustofnum til sveitarfélaga.

Væru ábyrg stjórnvöld hér við völd væri þessi deila löngu leyst, ég leyfi mér að fullyrða það, og væri önnur ríkisstjórn við völd væri deilan löngu leyst vegna þess að menn þurfa að vilja leysa vandann. Þetta snýst um pólitískan vilja til að leysa vandann. Hér vantar greinilega viljann, virðulegi forseti. Þetta er vont frumvarp. Lögboð sem þetta mun ekkert leysa, þetta lögboð mun framlengja vandann og senda kennara og grunnskólabörn út í óvissuna á mánudaginn, óvissu sem getur varað í allt að sex mánuði til viðbótar. Það er auðvitað óþolandi, virðulegi forseti. Það er óþolandi fyrir sveitarfélögin, það er óþolandi fyrir kennara, það er óþolandi fyrir grunnskólabörn og foreldra. Slíkir stjórnunarhættir eru óþolandi fyrir samfélagið allt.