131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:40]

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur komið með þessa ræðu nokkrum sinnum í dag og líka undanfarna daga um lífeyrisréttindin. Því hefur verið margsvarað og ég get svo sem endurtekið eitthvað af því. En það var þannig að svona var samið varðandi lífeyrisréttindin og að sjálfsögðu var þetta samningsatriði þegar grunnskólinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna. Það sem við erum að tala um nú eru laun kennara eins og þau eru í dag útborguð og það sem fólk þarf að lifa á eins og staðan er í dag. Við erum að tala um það og þar segi ég að ríkið beri ábyrgð vegna þess að með þessum lið hefur ekki fylgt nægt fjármagn til sveitarfélaganna. Það ber að leiðrétta.